Skylduskil til safna

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:14:58 (4333)

2000-02-15 14:14:58# 125. lþ. 63.8 fundur 326. mál: #A skylduskil til safna# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 576 frv. til nýrra laga um skylduskil til safna. Núgildandi lög um skilaskyldu safna eru lög 43/1977.

Tilgangurinn með lagafrv. því sem ég flyt hér nú er að tryggja að sá hluti þjóðararfsins og menningar okkar sem lögin ná til varðveitist komandi kynslóðum, verði skráður og sé aðgengilegur til rannsókna og skoðunar. Tilgangur skilaskyldu er hins vegar ekki sá að afla móttökusöfnum eintaka til almennrar notkunar eða afþreyingar.

[14:15]

Það þótti tímabært að endurskoða lögin um skilaskyldu til að tryggja að tilgangi þeirra um varðveislu menningararfsins verði náð. Það eru breyttir tímar, m.a. vegna stafrænnar tækni og nýrra samskiptahátta í upplýsingaþjóðfélaginu. Margvíslegar samfélagsbreytingar vegna þessa hafa áhrif á hlutverk og starfsemi bókasafna annars vegar og hins vegar á leiðir einstaklinga til að afla sér upplýsinga og láta til sín taka í almennri umræðu á grundvelli víðtæks tjáningarfrelsis. Því þótti nauðsynlegt að endurskoða núgildandi lög þannig að ákvæði um skylduskil nái til allra útgefinna og birtra verka án tillits til þess hvaða miðill er notaður við framleiðslu verkanna og dreifingu. Þegar þetta er sagt hlýtur öllum að vera ljóst að það er torvelt úrlausnarefni að ná þessu markmiði og það er torvelt úrlausnarefni fyrir bókasöfn og hvern þann sem hefur það hlutverk að halda utan um öll þau verk sem eru framleidd eða er dreift. Þetta á sérstaklega við þegar hugað er að því að hér er einnig verið að tala um rafræn gögn, þ.e. gögn sem eru t.d. birt á internetinu. Spurningar hafa vaknað víða um lönd hvernig eigi að standa að því að safna upplýsingum um slík gögn og varðveita þau.

Þegar litið er til þess hvernig þjóðir hafa brugðist við áskorun eins og þessari má segja að tvær meginstefnur séu ríkjandi, þ.e. annars vegar altæk skilaskylda og víðtæk skilaskylda sem nær til hvers kyns upplýsinga sem birst hafa almenningi og hins vegar stefna sem byggist á því að eingöngu er safnað þeim upplýsingum sem unnt er að safna og varðveita með raunhæfum hætti, hvað svo sem felt í orðunum raunhæfur háttur þegar um þessi mál er að ræða á annað borð. Í því frv. sem hér um ræðir er gerð tillaga um víðtæka söfnun upplýsinga, þar með víðtæka söfnun efnis á rafrænu formi á netinu. Það er sá rammi sem mótaður er í þessu frv. Þá er það einnig veigamikið úrlausnarefni hvaða heimildir bókasöfn eiga að hafa til notkunar á þeim safnkosti sem aflað er á grundvelli lögbundinnar skilaskyldu, sem sagt hvaða heimildir þau bókasöfn hafa sem fá bækur eða annað efni til sín til að nota þann safnkost sem þannig er aflað.

Í ljósi hugarstefnu um víðtækt stjórnarskrárvalið tjáningarfrelsi, sem tekur einnig til víðtæks réttar til þess að taka á móti upplýsingum, var þeirri skoðun haldið fram að bókasöfnin þyrftu að fá rýmri rétt en þau hafa nú samkvæmt höfundalögum og skilaskyldulögum til þess að nota safnkost sinn til óheftra útlána til almennings. Í því frv. sem ég er að kynna, er miðað við að heimildir notenda bókasafna til aðgangs að skilaskyldu efni taki mið af ákvæðum höfundalaga hverju sinni. Í ljósi sívaxandi efnahagslegrar þýðingar þeirra atvinnugreina sem byggja á höfundaréttarlegri vernd, þykir varhugavert að veikja starfsgrundvöll þessara greina með því að takmarka einkaréttindi rétthafa um of, eða veita bókasöfnum víðtækari heimildir en höfundalög kveða á um. Um leið og þetta er sagt er nauðsynlegt að gæta að því að í höfundalögum sé kveðið á um viðunandi jafnvægi milli einkaréttindahöfunda annars vegar og hins vegar almennra hagsmuna til afnota af hugverkum, einkum á sviði menntunar, rannsókna og aðgangs að upplýsingum. Þetta atriði er eitt af þeim álitaefnum sem er nú fjallað um í drögum að tilskipun Evrópusambandsins um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu og er fyrirsjáanlegt að nokkrar breytingar mun þurfa að gera á íslenskri höfundalöggjöf, m.a. með tilliti til starfsemi bókasafna þegar sú tilskipun hefur verið samþykkt innan Evrópusambandsins.

Frv. sem ég er að flytja er unnið af nefnd sem ég skipaði um mitt ár 1997. Í henni sátu Einar Sigurðsson landsbókavörður, og var hann formaður nefndarinnar, Böðvar Bjarki Pétursson, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands og Erla S. Árnadóttir lögfræðingur. Þóra Óskarsdóttir, deildarsérfræðingur í menntmrn., starfaði með nefndinni.

Umboð nefndarinnar fólst í því að fjalla um eftirtalin atriði og gera tillögur á grundvelli þeirra:

Nefndin átti að svara því hvaða efni skyldi lúta skilaskyldu og á hverjum skyldan skyldi hvíla. Í því sambandi bar sérstaklega að hafa hliðsjón af þróun sem orðið hefði frá því núgildandi lög voru sett að því er varðar framleiðslutækni, formbúning gagna og dreifingarhætti. Þá átti nefndin að kanna hvaða stofnanir skyldu vera móttöku- og varðveislustöðvar skilaskylds efnis og einstakra efnistegunda. Einnig átti nefndin að líta til þess hversu umfangsmikil skylduskilin skyldu vera að því er varðar eintakafjölda og loks hvaða reglur skyldu gilda um varðveislu og afnot skilaskylds efnis, m.a. í ljósi höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Þá var nefndinni falið að kanna hvernig þessum málum er skipað í nágrannalöndum Íslands, í meginatriðum, og gera grein fyrir því í skýrslu sinni og fylgir sú greinargerð nefndarinnar frv.

Nefndin skilaði tillögum sínum í frv. til nýrra laga um skylduskil safna og er það lagt fram óbreytt eins og það kom frá nefndinni. Rétt er að gera grein fyrir því að ekki náðist full samstaða í nefndinni um ákvæði 2. mgr. og 7. mgr. 11. gr. frv. og 15. gr. frv. og skilaði Erla S. Árnadóttir séráliti um þau atriði sem þar er fjallað um. Lúta athugasemdir hennar annars vegar að heimild notenda til aðgangs og afritunar af skilaskyldu efni, þar með töldu rafrænu efni. Þá gerir Erla S. Árnadóttir einnig athugasemdir við þann fjölda eintaka íslenskra kvikmynda sem skilaskyld eru samkvæmt frv. og telur hún að rétt sé að verkaskipting Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns og Kvikmyndasafns Íslands eigi að vera ljós og er mótfallin því að einu eintaki íslenskrar kvikmyndar sé skilað til Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns.

Ég tel að nefndin hafi unnið mjög gott starf og vil á þessum stað þakka henni störf hennar því, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir rakti, þá erum við hér að fjalla um mál sem eru ákaflega flókin, bæði tæknilega og efnislega. Mikið starf var unnið af hálfu nefndarinnar við að skilgreina einstaka þætti þessa flókna máls og síðan að móta tillögur sínar í því frv. sem liggur fyrir og ég hef ákveðið að flytja óbreytt eins og það kom frá nefndinni.

Það er ljóst af ákvæðum 15. gr. frv. og hinum lögfesta tilgangi skylduskilanna skv. 1. gr. frv. að heimildir manna til afnota af verkum sem aflað er á grundvelli skylduskila skulu taka mið af höfundalögum svo sem þau eru á hverjum tíma. Nauðsynlegt er að hafa þá grundvallarreglu í huga að þetta eru þær skorður sem við setjum þegar við erum að fjalla um þann kost sem er í þessum söfnum.

Helstu breytingar frá gildandi lögum sem í frv. er að finna eru þessar:

Efni sem ekki hefur verið skilaskylt verður það nú. Er þar um að ræða kvikmyndir, efni ljósvakamiðla, efni á rafrænum miðlum, þar á meðal tölvuforrit, auk örgagna og myndefnis á skyggnum. Ég vil sérstaklega taka fram varðandi kvikmyndirnar að aðstaða Kvikmyndasafns Íslands sem nú er starfrækt í Hafnarfirði hefur verið stórbætt og þar er nú aðstaða til þess að skapa kvikmyndaarfi þjóðarinnar og öðrum kvikmyndum sem safnað er samkvæmt frv., ef það verður að lögum, viðunandi aðstæður. Einnig er verið að búa þannig um í safninu að þar verður aðstaða til sýninga á kvikmyndum í gömlu kvikmyndahúsi í Hafnarfirði. Ég held því að umbúnaður þessa safns sé orðinn eins góður og við er að búast miðað við aðstöðu okkar.

Einnig lagt til að sú breyting verði gerð frá gildandi lögum að birting verði notuð sem viðmiðun um skilaskyldu. Í gildandi lögum er hins vegar miðað við fjölföldun á texta og myndefni eða útgáfu hljóðrita. Hér er því um það að ræða að efnið hafi birst og þá sé skilaskyldan virk.

Afnumið er ákvæði 13. gr. um ríkisstyrkta útgáfu. Samkvæmt 13. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir því að ef um svonefnda ríkisstyrkta útgáfu sé að ræða þá ætti ákveðinn eintakafjöldi að renna til skilgreindra safna í landinu. Þetta hefur aldrei komist í framkvæmd á grundvelli laganna sem sett voru 1977 og er enn þá erfiðara að framkvæma núna og það er álit þessa kunnáttufólks að afnema beri þetta ákvæði úr lögunum og er gerð tillaga um það.

Ekki eru lagðar til breytingar á reglum um á hverjum skilaskyldan hvílir en kveðið er á um hverjir beri kostnað af skilunum. Þá segir að fjöldi eintaka sem skila ber sé óbreyttur hvað varðar efni sem er háð skilaskyldu samkvæmt gildandi lögum, þ.e. fjögur eintök af efni sem gefið er út á pappír og þrjú eintök af hljóðritun. Hins vegar er lagt til að skilað verði þremur eintökum af örgögnum, skyggnum og gögnum sem gefin eru út á rafrænu formi, svo sem CD-ROM, en fjórum eintökum af samsettum útgáfum. Gert er ráð fyrir að myndbönd verði afhent í tveimur eintökum, nema íslenskar kvikmyndir á myndböndum sem verði afhentar í þremur eintökum. Af kvikmyndum framleiddum á filmu verði afhent tvö eintök og skal annað vera frumeintak eða ígildi þess.

Þá er lagt til að frestir til afhendingar efnis verði ákveðnir í reglugerð. Þó er lagt til að lögfest verði regla um að frumeintak kvikmynda skuli afhent innan sjö ára frá frumsýningardegi. Er ástæða þess sú að framleiðanda kvikmyndar er þörf á því að hafa aðgang að frumeintaki meðan verkið er í dreifingu.

Herra forseti. Ég legg þetta frv. fram til kynningar á þessu þingi. Ég tel að hér sé um mál að ræða sem menn eiga að gefa sér gott tóm til þess að reifa og ég tel eðlilegt að hv. menntmn. sendi það sem víðast til umsagnar og fái viðbrögð við málinu. Af minni hálfu er ekki verið að knýja á um afgreiðslu þess endilega á þessu þingi núna, því hér er um mál að ræða sem þarf víðtækar umræður og ég tel að það fari best á því að þær fari fram á hinu háa Alþingi og undir forustu menntmn. þingsins enda er hér ekki um pólitískt mál að ræða í þeim hefðbundna skilningi sem við leggjum yfirleitt í slík mál heldur mál sem þarf að ræða og reifa á víðtækum forsendum. Ég treysti hv. menntmn. best fyrir slíkum umræðum og slíkri könnun. Með þeim orðum leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að frv. fari til 2. umr. og hv. menntmn.