Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:49:30 (4336)

2000-02-15 14:49:30# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika, að heimila keppni, sýningar og kennslu í ólympískum hnefaleikum, að heimila sölu og notkun á hnefaleikaglófum og öðrum tækjum sem ætluð eru til þjálfunar í ólympískum hnefaleikum. Og í þriðja lagi að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Í þessu frv. er gerður skýr greinarmunur á annars vegar ólympískum hnefaleikum sem eru áhugamannahnefaleikar og hins vegar atvinnumannahnefaleikum sem eru m.a. stundaðir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Rússlandi og víðar. Á Íslandi hafa hnefaleikar verið bannaðir frá árinu 1956 en fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Hnefaleikar hafa verið stundaðir í einhverri mynd í heiminum um árþúsundir. Fundist hafa höggmyndir af hnefaleikamönnum á Krít sem taldar eru vera 3.500--4.000 ára gamlar. Nútímahnefaleikar eru taldir upprunnir á Englandi 1681, en þaðan barst íþróttin um allan heim. Keppt hafði verið í hnefaleikum á Ólympíuleikunum grísku og var sá lárviðarsveigur eftirsóknarverður.

Herra forseti. Í bókinni Ármann í hundrað ár, sem rituð er af Lýði Björnssyni, kemur fram að fyrsti vísir íþróttarinnar hér á landi hafi komið með Vilhelm Jacobson hraðritara. Hann kynntist íþróttinni í Danmörku í fyrri heimstyrjöldinni. Vilhelm Jacobson kom til Íslands 1916 og tók þegar að veita ungum mönnum tilsögn í íþróttinni í leikfimisal Landskotsskóla. Þessi kennsla stóð aðeins einn vetur. Hnefaleikar hófust hjá Ármanni árið 1926 og var fyrsta hnefaleikasýningin hér haldin það sama ár í Iðnó. Fyrsta opinbera hnefaleikamótið var síðan haldið á vegum félagsins í Gamla bíói 22. apríl 1928 en áður höfðu farið fram nokkrar sýningar. Á þessu móti var Jóhannes Jósefsson hringdómari. Þetta mót vakti mikla athygli og var húsfyllir. Fleiri mót fylgdu í kjölfarið en fengu misjafna dóma enda hefur trúlega byrjendabragur verið á keppendum vegna reynsluleysis.

Um nokkurra ára skeið lá iðkun þessarar íþróttar niðri en árið 1934 komu út hnefaleikareglur Íþróttasambands Íslands sem urðu til þess að hnefaleikakennsla hófst á nýjan leik hjá Ármanni og í þetta skipti í íþróttasal Menntaskólans í Reykjavík. Nokkrar hnefaleikasýningar voru haldnar á vegum Ármanns í ársbyrjun 1936, m.a. í Iðnó, á Akranesi, á Selfossi og í Keflavík. Þá voru hnefaleikar í miklum metum hér á landi og yfirvöld settu tæki til hnefaleikaiðkunar í sama tollflokk og námsbækur.

Morgunblaðið segir svo frá 22. júní 1943, með leyfi forseta:

,,Hnefaleikameistaramót Íslands fór fram í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar síðastliðið laugardagskvöld. Ármann stóð fyrir mótinu, sem var eitt af meistararmótum ÍSÍ. Keppendur sem allir eru Ármenningar voru tólf í sex þyngdarflokkum. Húsið var troðfullt af áhorfendum og urðu margir frá að hverfa. Það var sérstaklega eftirtektarvert hve vel og drengilega keppendur komu fram. Leikur þeirra var prúður og fallegur og hinum ágæta hnefaleikakennara Ármanns, Guðmundi Arasyni, til mikils sóma.``

Hnefaleikar voru svo í lægð á árunum 1954--1956. Hnefaleikameistaramót Íslands féll niður þessi ár en Ármann hélt hnefaleikameistaramót 9. febrúar 1954 í tengslum við 65 ára afmælishátíð félagsins og var þetta síðasta hnefaleikamótið á Íslandi.

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ólympískir hnefaleikar séu ruddaleg íþrótt. Það er t.d. svipað með hnefaleikum og skylmingum að báðar þessar íþróttir byggja á hraða og snerpu en ekki ógnarkrafti eins og margir halda. Hér er ekki um að ræða hnefaleika atvinnumanna með 12--15 lotum þar sem keppt er um gríðarlegar fjárhæðir heldur hnefaleika áhugamanna þar sem loturnar eru þrjár og notaðar eru höfuðhlífar og mýkri hanskar og öll dómgæsla er mun strangari. Alvarleg slys eru þekkt í atvinnumannahnefaleikum, en þannig slys hafa ekki orðið á áhugamannahnefaleikum vegna hinna ólíku reglna sem þar gilda.

Árið 1966 skipaði Norðurlandaráð sérstaka nefnd sem skyldi athuga hvort banna skyldi hnefaleika á Norðurlöndum. Fjölmargir læknar voru kallaðir til starfa fyrir nefndina í því skyni að rannsaka meiðsl og annað af völdum hnefaleika. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að leggja bann við þessari íþróttagrein frekar en öðrum. Álit nefndarinnar var að rannsókn lokinni að meiðsl þau sem hljótast af hnefaleikum séu síst meiri en þau sem íþróttamenn hljóta í öðrum greinum.

Eins og fram kemur í greinargerð með frv. hafa Svíar rannsakað hnefaleika og völdu til þess færustu sérfræðinga í heilalækningum. Þar voru hnefaleikar bornir saman við knattspyrnu og fimleika og var útkoma hnefaleika hvað meiðsli varðar mjög góð, betri en í knattspyrnunni. Mig langar að vitna í grein sem Guðmundur Arason skrifaði í Morgunblaðið 19. nóvember 1995, með leyfi forseta:

,,... hnefaleikar [voru] iðkaðir með virðingu fyrir góðri og hollri íþrótt. Allar keppnir sem haldnar voru á þessum árum hlutu góða dóma í blaðaumfjöllun vegna drengilegrar framkomu keppenda og allgóðrar kunnáttu. Hér var fjöldi móta ár hvert og íþrótt þessa iðkaði að staðaldri fjöldi manna. Hnefaleikamenn annarra landa komu til keppni hér og sýningar voru haldnar víða. Aldrei kom fyrir að neinn keppenda slasaðist við æfingar eða keppni í þau tæp 30 ár sem keppt var í hnefaleikum hér, það finnast ekki dæmi þess í slysaskýrslum ÍSÍ.``

Herra forseti. Hnefaleikar eru ein af þeim íþróttum þar sem gerð eru skörp skil á milli áhugamennsku og atvinnumennsku. Þetta er íþrótt sem hægt er að iðka allt árið með sáralitlum tilkostnaði, óháð veðri og vindum. Íþróttin er eðlileg manninum eins og að ganga og hlaupa. Það hefur fylgt manninum frá ómunatíð að þurfa að verja sig. Hún skapar festu, aga og sjálfsöryggi, sem kunnátta í sjálfsvörn skapar hverjum og einum sem iðka hana.

Herra forseti. Ísland er eina landið í heiminum sem hefur bannað hnefaleika og það er athyglisvert að engin þjóð hefur fetað í fótspor okkar þar. Algjört einsdæmi er að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf. Aðild að Ólympíuleikunum felur í sér viðurkenningu á þeim greinum sem keppt er í á leikunum hverju sinni. Við eigum þess vegna að leyfa ólympíska hnefaleika á ný. Herra forseti. Það hlýtur að vera í valdi hvers einstaklings að velja og hafna hvaða íþrótt hann stundar hverju sinni, hvort það er fótbolti, hestamennska, fimleikar eða ólympískir hnefaleikar.