Breyting á áfengiskaupaaldri

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:09:10 (4410)

2000-02-16 14:09:10# 125. lþ. 65.2 fundur 323. mál: #A breyting á áfengiskaupaaldri# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og ábendingar hennar. Hér er spurt um mál sem vissulega hefði mátt fara betur. Tilurð þess má þó rekja til atvika sem áttu sér stað áður en ég tók við ráðherraembætti. Nefnd þeirri sem hér um ræðir hefur því miður ekki miðað nógu vel í störfum sínum þannig að ekki hefur verið staðið við þau tímamörk sem henni voru sett. Eins og áður hefur komið fram, í svari fyrrv. dómsmrh. í mars sl. við fyrirspurn hv. þm. sem nú spyr aftur um málið, dróst skipan nefndarinnar fram í janúar á síðasta ári. Nefndinni þótti síðan nauðsynlegt að láta fara fram víðtæka gagnaöflun til að byggja niðurstöðu sína á, bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Hún leitaði einnig til Ingu Dóru Sigfúsdóttur, sérfræðings hjá fyrirtækinu Rannsóknir og greining, en hún hefur unnið að samantekt rannsókna sem gerðar hafa verið um áfengisneyslu og drykkjuvenjur íslenskra ungmenna. Var það mat nefndarinnar að mikilvægt væri að fá niðurstöður úr þeirri samantekt til nota í skýrslu nefndarinnar og til rökstuðnings þeim tillögum sem hún mun gera. Niðurstöður skýrslunnar frá Rannsóknum og greiningu bárust í nóvember sl. og hefur nefndarstarfinu síðan verið hraðað svo sem föng eru á. Drög að skýrslu nefndarinnar liggja nú fyrir hjá nefndarmönnum og stefnir nefndin að því að skila tillögum sínum eigi síðar en í apríl næstkomandi, en nefndin fundar nú stíft.

Hæstv. forseti. Það á sinn þátt í drættinum á starfi nefndarinnar að tveir nefndarmenn hafa látið af störfum á starfstímanum og aðrir komið í þeirra stað. Nefndin er nú skipuð eftirtöldum: Söndru Baldvinsdóttur frá dómsmrn. sem er formaður; Jóni Bjartmarz frá ríkislögreglustjóra, Jónínu Bjartmarz frá Samtökunum heimili og skóla, Þorgerði Ragnarsdóttur, tilnefndri af heilbr.- og trmrn., Ingibjörgu Guðlaugsdóttur, tilnefndri af Félagi framhaldsskólanemenda og Óttari Guðmundssyni, tilnefndum af landlæknisembættinu.

Svo vikið sé að fyrstu spurningu fyrirspyrjanda þá getur verið nokkuð erfitt fyrir ráðherra að hafa verkstjórn með nefndum sem þessari. Ég hlýt að vísa til orða fyrrv. dómsmrh. um að þingmenn sýni skilning á að nefndin þurfi nauðsynlegan tíma til að kanna málið. Ráðherra hefði auðvitað getað leyst nefndina frá störfum og skipað nýja en það hefði ekki flýtt fyrir lokaniðurstöðu. Það hefur sjaldan gefist vel að skipta um hest í miðri á. Víst hefði átt að óska atbeina Alþingis um framlengingu á frestinum samkvæmt lögunum og framkvæmdarvaldshafar eiga að framfylgja lagafyrirmælum. Sú skylda takmarkast þó af því sem telja verður mögulegt.

Það sem mestu máli skiptir er að fá vandaða niðurstöðu úr nefndinni. Ég er viss um að hv. fyrirspyrjandi er mér sammála um það. Hér er um að ræða álitaefni sem margar hliðar eru á og bent var á í allshn. á sínum tíma. Þetta kemur glöggt fram í þeim fyrirmælum sem fram koma í bráðabirgðaákvæði laganna sem hv. fyrirspyrjandi gerði einmitt grein fyrir í máli sínu hér áðan. Ég mun að sjálfsögðu leggja áherslu á að fylgjast sérstaklega vel með þessu máli og vænti þess að nefndin skili tillögum sínum eins fljótt og unnt er þannig að hv. þm. geti kynnt sér þær.