Íslenski hrafninn

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:27:56 (4418)

2000-02-16 14:27:56# 125. lþ. 65.4 fundur 313. mál: #A íslenski hrafninn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt að stofninn hefur minnkað miðað við þær upplýsingar sem tiltækar eru og hrafninn fer á válista --- það er verið að flokka núna hvar hann fer á válista. Það er ekki í verkahring ráðherra, eins og hér kom fram í fyrirspurn hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, að flokka hrafninn. Náttúrufræðistofnun Íslands gerir það og válistinn kemur út núna á næstu tveimur mánuðum en hér var einnig spurt um það. Þegar Náttúrufræðistofnun Íslands er búin að flokka hrafninn á válistann í þann flokk sem þeir telja að hann eigi heima í þá mun ráðuneytið, í samráði við Náttúruvernd ríkisins og ráðgjafarnefnd um villt dýr og hugsanlega fleiri, taka afstöðu til niðurstöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands og meta hvort ástæða þyki til aðgerða, þá hvaða aðgerða, til að styrkja vernd tegundarinnar, hugsanlega með friðun.

Virðulegur forseti. Ég nefndi í svari mínu áðan að það eru fjórar fuglategundir sem fara á válistann.

(Forseti (GuðjG): Nú eru allt of margir fundir í gangi hérna í salnum. Forseti biður um hljóð í salnum á meðan verið er að tala.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir.

Ég nefndi það áðan í svari mínu að samkvæmt upplýsingum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru fjórar tegundir í vinnslu núna í sambandi við válistann, þ.e. hrafninn, grágæsin, svartbakurinn og svartþröstur. Það kom mér verulega á óvart þegar ég fékk þær upplýsingar að svartbakurinn væri ein af þeim tegundum sem er til skoðunar í sambandi við válistann. Ég vildi gjarnan að það kæmi hér fram.