Rannsóknir á tveimur sjóslysum

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:40:24 (4423)

2000-02-16 14:40:24# 125. lþ. 65.3 fundur 278. mál: #A rannsóknir á tveimur sjóslysum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna þeirra orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að um væri að ræða skiptar skoðanir innan sjóslysanefndar og því væri rannsókn ekki lokið þá vil ég segja að nefndin hefur skilað ráðuneytinu skýrslu. Það eru uppi tvenns konar skýringar tveggja nefndarmanna þannig að út af fyrir sig er ekki beinn ágreiningur þó skýringar séu mismunandi á tildrögum. Ég lít því svo á að nefndin hafi lokið því að skila rannsóknarskýrslu til ráðuneytisins og mun því ekki gera kröfu um frekari vinnu að svo komnu máli nema eitthvað sérstakt nýtt komi upp eða komi í ljós. Ég tel að rannsókninni sé þar með lokið af hálfu nefndarinnar. Hvað varðar það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, þ.e. um að það þurfi að hraða rannsókn þessara mála þá er ég alveg sammála því og ég tel að það þurfi að skýra þá löggjöf. Ég hef gert ráð fyrir því að leggja fram frv. til laga um rannsóknarnefnd sjóslysa eða rannsóknir sjóslysa á þessu þingi og vonast til að þingið fái það til meðferðar áður en langt um líður. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðurnar og fyrirspurnina.