Varðveisla sjaldgæfra hrossalita

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:55:39 (4429)

2000-02-16 14:55:39# 125. lþ. 65.5 fundur 317. mál: #A varðveisla sjaldgæfra hrossalita# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og þeim sem tóku þátt í þessari umræðu fyrir ágætar umræður. Ég vil vekja athygli á því að í sumar verður haldið hér fjölmennasta Landsmót hestamanna sem haldið hefur verið í sögunni. Talið er að 100 þús. manns muni sækja landsmótið og þar verður margt sér til gamans gert og vænti ég að hv. fyrirspyrjandi verði þar í fylkingarbrjósti í skrautreiðinni og fari tígulega á litföróttum hesti. En í tengslum við Landsmót hestamanna sem haldið verður í Víðidal í Reykjavík í byrjun júlí í sumar verður haldin sýning á hrossum þar sem sýnd verða hin ýmsu litaafbrigði íslenska hestsins. Vonast er til að sú sýning efli áhuga manna og skilning á því hvaða verðmæti eru fólgin í litafjölbreytni hrossastofnsins og mikilvægi þess að varðveita þessa einstæðu arfleifð.

Ég vil líka vekja athygli á því að okkur ber skylda að varðveita öll þau sérkenni íslenskra búfjárkynja sem eru varðveitt hér og ræktuð og hafa ekki blandast eins og hv. þm. sagði áðan. Hins vegar er erfitt að flytja hér inn sæði úr stóðhestum sem seldir hafa verið út. Þar verðum við að gæta fyllstu varúðar. En ég trúi því að Íslendingar taki við sér og séu að því varðandi litförótt. Kannski er graðhesturinn væntanlegi fæddur norður í landi, eins og hv. þm. Jón Bjarnason taldi þingheimi trú um hér rétt áðan.

Hvað fjármagnið varðar þá kann það að vera rétt hjá hv. þm. og ég mun fara yfir það. Það á ekki að standa á peningum í svona varnarstarfi. Ef meiri peninga þarf til þess þá er sjálfsagt að leita eftir því. Ég mun fara yfir það með búgreininni. Þeir hafa að vísu mikla peninga nú í annað og geta nýtt þá einnig í þetta. En ég vil ekki að það standi á því þannig að ég mun taka hv. þm. á orðinu og ræða það og þakka þann stuðning sem þingið, fjárln. og einstakir þingmenn sýna þeirri sókn sem nú er komin í gang í kringum íslenska hestinn.