Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 15:09:09 (4435)

2000-02-16 15:09:09# 125. lþ. 65.6 fundur 331. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Okkur rekur sjálfsagt öll minni til þess að þetta mál fór nokkuð hratt í gegnum þingið og það fékk að mínu mati býsna góðar viðtökur. Flestir hv. þm. höfðu fullan skilning og vilja til þess að taka á þeim málum á þennan hátt eða einhvern áþekkan hátt og gert var, en síðan er reynslan hins vegar sú, eins og hér hefur komið fram, að ESA hefur gert athugasemdir. Þær athugasemdir lúta ekki fyrst og fremst að 7. gr. sem hv. þm. talaði um í fyrri ræðu sinni, en hins vegar held ég að ástæða sé til þess þegar lögin koma til endurskoðunar að 7. gr. verði einnig endurskoðuð. Ég get ekki greint frá því núna hvaða hugsanlegar breytingar verða lagðar til á lögunum þar sem við höfum ekki fengið niðurstöðu frá ESA, en mér sýnist ljóst að einhverjar breytingar þurfi að gera.

Um það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller þá er það rétt hjá honum að heilmikið er um sértækar aðgerðir í EES-löndum og mér finnst ég hafi orðið þess betur áskynja núna síðustu vikurnar heldur en ég þó vissi áður að ýmislegt virðist vera hægt að leyfa sér. Og það að athugasemd skyldi verða gerð af hálfu ESA var eitthvað sem ráðuneytið hafði ekki reiknað með.

Að síðustu vil ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn. En því miður get ég ekki svarað henni nákvæmar en þetta þar sem málið hefur ekki verið afgreitt frá ESA, en hv. þingmenn mega búast við að brátt birtist frv. um einhverjar breytingar á lögunum.