Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 12:24:38 (4456)

2000-02-17 12:24:38# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[12:24]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Samgöngumál eru mikilvægur málaflokkur og afar sýnilegur. Samgönguáætlun sem hér er lögð fram og er líka vegáætlun er merkilegt, gott plagg og ágætlega unnið. Fyrir það ber að þakka og tek ég undir þakkir annarra hv. þm. sem hér hafa talað.

Margt er vissulega óunnið í vegamálum, það er rétt, og ráðast þarf í brýnar samgöngubætur. Þó megum við ekki gleyma hinum stórfelldu breytingum sem átt hafa sér stað og samgöngubótum sem gerðar hafa verið á tiltölulega skömmum tíma. Ef við lítum t.d. aftur 20 ár þá hefur ekkert smáræði áunnist á þessum tíma. Best sést það ef við lítum á tölur um bundið slitlag, ekki síst ef við ökum um landið og rifjum upp hvernig var að aka um fyrir 20 árum. Árið 1980 voru u.þ.b. 200--300 km af bundnu slitlagi utan þéttbýlisstaðanna en í dag eru þeir hvorki meira né minna en 3.600. Þetta er gífurlega mikil breyting og hefur auðvitað skipt miklu máli.

Við erum lítil þjóð í tiltölulega stóru landi og vegna legu landsins er vegagerð okkar dýrari en víða annars staðar. Þess vegna er líka ástæða til að þakka þá áfanga sem við höfum náð og gleðjast yfir því sem vel hefur verið gert. Þar vil ég nefna að Vegagerðin hefur staðið sig prýðisvel í sínu mikilvæga hlutverki.

Stofnbrautir í landinu þurfa mikið viðhald, umferð hefur stóraukist og því miður hafa stofnbrautirnar dregið til sín fé frá viðhaldi tengivega og að nokkru leyti hafa þeir setið á hakanum. Vissulega þarf meira fé til til að gera útvegina eða tengivegina í landinu viðunandi. Allt byggist það á fjármagni. Við höfum þekkingu og tækni til að vinna hraðar að vegabótum en þó hefur verið gert. Því er eðlilegt að ríkið losi hluta af því fé sem það á bundið í eignum til þess að byggja upp samgöngukerfið enn þá hraðar. Ég er því eindregið fylgjandi. Ríkinu ber að sinna ákveðnum málaflokkum en það sem aðrir aðilar geta gert jafn vel eða betur er eðlilegt að ríkið afhendi þeim.

Ég nefndi að vegáætlun er vönduð og vel unnin. Nú er kveðið upp úr með að farið skuli í jarðgangagerð og unnið samkvæmt þeirri samþykkt Alþingis frá síðasta þingi. Þetta mikla hagsmunamál margra byggða er nú tekið upp og af stórhug. Áætlunin segir að jarðgöng verði komin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar annars vegar og Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar hins vegar á næstu sex til átta árum (HjÁ: Ef guð lofar.) ef guð lofar og almennar aðstæður í þjóðfélaginu. Ég þakka nafna mínum, hv. þm. Hjálmari Árnasyni, fyrir að benda á það og nánast að hefja hér morgunbæn ásamt okkur hinum.

Jarðgöng, herra forseti, eru raunhæfur og sums staðar eini kosturinn til samgöngubóta. Þau eru líka oft hagkvæmari en áætlanir benda til, áætlanir sem gerðar eru um hagkvæmnina fyrir fram. Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, Guðjóns A. Kristjánssonar þá var spáð 60% aukningu umferðar um Vestfjarðagöng frá því sem verið hafði um vegina þar á milli en aukningin varð 120%. Um daginn kom fram í fréttum að samkvæmt upplýsingum Spalar hf. hafi umferðin um Hvalfjarðargöng verið helmingi meiri en ráðgert var. Þar með eru þau helmingi hagkvæmari, helmingi fljótlegra að borga þau upp en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Áætlanir þarf að sjálfsögðu að gera af varkárni. Ég efa ekki að hið sama muni gilda um öll þau þrenn jarðgöng sem sett eru í forgangshóp núna fyrir vestan, norðan og austan. Ég býst við að þau verði hagkvæmari en áætlanir gera ráð fyrir og meiri umferð um þau. Ég efa heldur ekki að hér verða stigin heillaspor fyrir þær byggðir sem í hlut eiga. Ég tel að við eigum að gleðjast yfir góðum áformum og hefjast handa.