Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:08:43 (4513)

2000-02-17 16:08:43# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aldeilis ekki sammála hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur um að allt innanlandsflug fari til Keflavíkur. Það er dálítið merkilegt í umræðunni að menn eru að tala um að tvöfalda eigi Reykjanesbrautina en síðan eru þeir komnir langt á undan sjálfum sér í því að auka enn frekar umferð á Reykjanesbraut með því að flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur. Þetta er með ólíkindum.

Annað sem hefur komið fram og lítið hefur verið rætt um er að verið er að tala um að þingmenn Reykjaness ætli að sameinast um það að blanda sér í mál Reykjanesbrautar og vinna að því að hún verði tvöfölduð.

Eins og fram hefur komið skiptir Reykjanesbraut okkur Reykvíkinga verulegu máli og aðeins til upplýsingar um það flutti ég ásamt fleiri þingmönnum þáltill. fyrir sex árum, og var ég þar 1. flm. að lýsingu Reykjanesbrautar. Reykvíkingar gera sér fulla grein fyrir alvarleika þessa máls og þess vegna er eðlilegt að virðulegir þingmenn Reykjaneskjördæmis og Reykjavíkur sameinist um að ræða þessi mál og einnig rétt er að benda á, eins og áður hefur komið fram, að auðvitað skiptir það verulegu máli að umferðaræðar í Reykjavík séu greiðar líka. Ein besta fjárfesting sem hefur verið gerð á sl. tíu árum er framlenging Breiðholtsbrautar í samtengingu við Suðurlandsveg og Vesturlandsveg af því að áður lá bara ein braut úr borginni út úr bænum. Þetta er einhver besta og arðbærasta fjárfesting sem hefur verið gerð og ég segi það sem þingmaður Reykvíkinga og tek undir það sem áður hefur komið fram í þessu máli, að auðvitað eigum við að standa öll sameinuð að því að höfuðborgarsvæðið í heild verði skoðað og standa þannig að verki að umferðin verði sem greiðust hvar sem ekið er, í borgina, út úr henni eða til Keflavíkur því að þetta skiptir okkur öll miklu máli. Það þýðir ekki bara að hugsa um eina braut í einu, hvað þá heldur að fara langt á undan sjálfum sér og segja: Við skulum tvöfalda Reykjanesbrautina en byrja á því að flytja allt innanlandsflug til Keflavíkur.