Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:12:20 (4515)

2000-02-17 16:12:20# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefði hæstv. samgrh. þurft að vera viðstaddur til að hlusta á þær merkilegu niðurstöður sem hér eru komnar. Það er nefnilega svo og það er rétt eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, að það skiptir auðvitað miklu máli að þingmenn þessara stóru kjördæma setjist niður og raði forgangsverkefnum. Það hefur verið þannig hjá Vegagerðinni að hún hefur staðið fyrir því mörg umliðin ár sem betur fer að boða þingmenn þessara kjördæma sameiginlega til sín. Fulltrúar þeirra hafa þá mætt, fulltrúar þingmanna Reykjavíkur og Reykjaness hafa mætt til þess að fara yfir framkvæmdaáætlun með Vegagerðinni.

Það sem hins vegar er alvarlegast í þessu máli er það sem kom fram hjá hæstv. samgrh. að sveitarstjórnarmenn bæði í Reykjavík og nágrannabyggðum hafa ekki unnið heimavinnuna sína. Þeir eru ekki enn þá tilbúnir til að leggja fram fyrir samgrn. og samgrh. hvernig eigi að halda á málum. Það er alvarleiki málsins. En hitt er aftur bjartara og hefur birt yfir eftir að umræða um vegáætlunina hófst í morgun, að þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness vilja setjast niður, ræða málin um Reykjanesbraut, um Reykjavík og raða síðan niður hvar sé heppilegast að byrja og hvernig eigi að halda á málum svo að sá sem er í Keflavík og leggur í langferð annaðhvort austur eða vestur komist sína leið í einum áfanga án mikilla trafala í umferðinni að ógleymdum þeim sem þurfa að koma til Reykjavíkur að austan eða norðan, að þeir eigi greiðan aðgang að líka. Við hljótum að vera sammála því að búa svo um hnútana að fólk eigi greiða leið um þessi svæði.