Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:34:42 (4521)

2000-02-17 16:34:42# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með mikilli athygli á ræðu hv. þm. enda fer þar maður sem hefur víðtæka reynslu af vegagerð og ekki síður sem oddviti næststærsta sveitarfélags á landinu. Ég get tekið undir flest það sem hann sagði. Fyrst vil ég spyrja hv. þm. hvort hann hafi ekki í þingflokki Sjálfstfl. samþykkt þessa frestun framkvæmda á 600 millj. Hann kvartaði yfir því hér. Hefur ríkisstjórnin ekki heimild þingflokkanna til að koma með þá tillögu hér inn eða skar hann sig þar úr og voru kannski fleiri sem voru á móti þeim ráðstöfunum?

Í annan stað sakna ég þess dálítið að hv. þm. ræddi ekki merka yfirlýsingu hæstv. samgrh. í andsvari fyrr í dag þar sem hann fullyrti að það væri við sveitarstjórnir á suðvesturhorninu að sakast. Undirbúningur af þeirra hálfu hefði ekki verið nægilega góður til þess að unnt væri að finna fjármunum stað í vegáætluninni til að ráðast í framkvæmdir. Ég spyr hv. þm. hvort hann sé sáttur og samþykki slíkar yfirlýsingar, hvort það sé þannig að Reykjanesbrautin í kringum Kópavog til að mynda og gatnamót sem hann nefndi sjálfur, í Mjóddinni, að þar standi eitthvað á undirbúningi eða sveitarfélögin hafi ekki skilað sínu? Hafa þingmenn ekki skilað sínu hvað varðar undirbúning framkvæmda á Reykjanesbrautinni? Er hv. þm. sammála yfirlýsingum hæstv. ráðherra í þessum efnum?

Ég vil líka spyrja hv. þm. og undirstrika að ég vil taka heils hugar þátt í að reyna að flýta framkvæmdum. Það ber brýna nauðsyn til þess á Reykjanesbrautinni í nyrðri og syðri enda. Ég spyr hv. þm. hvort hann finni því einhvern stað í þessari vegáætlun að hægt sé að ráðast í tvöföldun Reykjanesbrautar á árinu 2003--2005. Ég finn það ekki. Kannski gerir hv. þm. það.