Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 16:36:55 (4522)

2000-02-17 16:36:55# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt til að svara þessu þá eru það alveg hreinar línur, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, að það vorum við, sveitarstjórnarmennirnir, sem röðuðum framkvæmdum niður í forgangsröð á höfuðborgarsvæðinu. Að vísu var það fyrir fjórum árum eða svo og það þarf náttúrlega að vera í sífelldri endurskoðun. Við þurfum að endurskoða þetta núna miðað við þá gífurlegu aukningu sem hefur orðið á umferð. Það er alveg fullt samstarf um það milli sveitarstjórnanna og Vegagerðarinnar hvernig við keyrum málið áfram.

Varðandi þessar 585 millj., þá samþykkti ég þær en var náttúrlega ósáttur við það, það er ljóst. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er náttúrlega verkefni samgn. og hæstv. ráðherra. Það er búið að fara yfir það og margir þingmenn Reykn. eru búnir að fara yfir það hvernig hægt er að gera þetta. Það er hægt að gera þetta eins og var rætt um hér, að bjóða þetta út og verktakinn fjármagnaði framkvæmdirnar og annað slíkt. Ég er ekki viss um að það borgi sig að bjóða þetta út í heilu lagi. Það gætu verið tveir eða þrír áfangar í einu og byrjað yrði á hættulegustu hlutum vegarins, en það er náttúrlega verkefni nefndarinnar. Það er sjálfsagt að láta reyna á það að einhver fjármagni slíkt, einhver framkvæmdaraðili, og fái borgað eftir 3--5 ár. Þetta er gert erlendis, er algengt þar, og þetta yrði mjög til að flýta þessari nauðsynlegu framkvæmd og ég bendi á að Reykjanesbraut er ekki eini vegurinn á landinu sem þarf að lagfæra á þennan hátt.