Fjármögnun á tvöföldun Reykjanesbrautar

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 15:20:34 (4589)

2000-02-21 15:20:34# 125. lþ. 67.1 fundur 329#B fjármögnun á tvöföldun Reykjanesbrautar# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svarið. Að sjálfsögðu er ljóst að einstakir verktakar velja sér ekki sjálfir verk hjá hinu opinbera. Þar gilda auðvitað ákveðnar reglur eins og hæstv. ráðherra vék að. Ég tel þó skipta mestu máli og það var tilefni fyrirspurnar minnar að forstjóri tiltekins öflugs fyrirtækis hefur sterklega gefið í skyn að það fyrirtæki hafi áhuga á að ganga til samninga strax. Aðrir kunna að hafa áhuga og þess vegna spurði ég hæstv. samgrh., hvort, ef slíkt formlegt tilboð bærist, hæstv. ráðherra væri tilbúinn að efna til útboðs þar sem einkaaðili fjármagnaði og framkvæmdi. Ég skil orð hæstv. ráðherra þannig að hann sé reiðubúinn að bregðast við því og þar af leiðandi verði möguleikar á því að hraða tvöföldun Reykjanesbrautar. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör.