Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra

Mánudaginn 21. febrúar 2000, kl. 17:21:53 (4608)

2000-02-21 17:21:53# 125. lþ. 67.10 fundur 275. mál: #A starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra# skýrsl, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er viðamikið mál á dagskrá sem sannarlega verður ekki til lykta leitt að einu eða neinu leyti í þessari ágripskenndu umræðu sem hér hlýtur að fara fram. Ég held þó að fram að þessu hafi umræðan og skýrslan sjálf raunar varpað ljósi á ýmsa þá þætti sem mikilvægt er að við stjórnmálamenn, almenningur allur og þeir sem hafa opinbera skyldu á herðum þurfa að hafa að leiðarljósi.

Ég vil almennt segja um skýrsluna að réttnefni hennar er opinber stjórnsýsla, réttindi og skyldur. Það er mikilvægt í samfélagi okkar að stjórnsýslan sé í fyrsta lagi gagnsæ. Í öðru lagi tryggi hún aðgengi og rétt almennings til upplýsinga, aðgengi almennings og notenda til þjónustunnar, til fulltrúa stjórnkerfisins, hvort heldur það eru stjórnmálamenn eða embættismenn. Fyrirliggjandi séu tiltölulega skýrar og einfaldar viðmiðunarreglur, almennar rammareglur sem eru auðskiljanlegar öllum almenningi og menn forðist eins og kostur of flókið stjórnkerfi. Það hefur á hinn bóginn í tímans rás orðið miklum mun viðameira en þekktist á árum áður og af þeim sökum hefur almenningi e.t.v. gengið verr en áður að glöggva sig á helstu kennileitum og það jafnvel þrátt fyrir að okkur hafi miðað talsvert áleiðis hvað varðar miðlun upplýsinga. Það er hárrétt hjá hæstv. forsrh. hvað varðar tilraunir stjórnkerfisins til að koma til móts við þessi réttindi almennings hvað varðar upplýsingar, frumkvæði stjórnkerfisins, opinberra aðila á því að miðla upplýsingum o.s.frv. Þá er það engu að síður þannig og ég held að taka verði undir það að upplifun a.m.k. mín og fleiri sem hér hafa talað áður er sú að allur almenningur á kannski erfiðara með það en fyrr að gera sér grein fyrir stöðu sinni og réttindum. Ég ítreka að í þessu liggur enginn broddur af minni hálfu og engin gagnrýni á hendur einum eða neinum hvað varðar tilraunir opinberra aðila til að mæta þeim þörfum, svo sem með stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og almennri kynningu.

Ég undirstrika, herra forseti, að þessari viðamiklu skýrslu verði ekki fundinn sá farvegur eingöngu að menn ræði hana hér í þrjá, fjóra klukkutíma og síðan ekki söguna meir heldur að menn tryggi það og miði að því að hér verði um síumræðu að ræða sem byggi m.a. á þessari skýrslu og öðrum álitamálum sem uppi eru.

Það er því, herra forseti, dálítið athyglisvert því að við erum að ræða grundvallaratriði í stjórnsýslu, grundvallaratriði í starfsemi þingsins, starfsemi ríkisstjórnar, dómsvalds o.s.frv., hversu þingið sjálft sýnir þessari umræðu litla virðingu. Hér eru örfáir þingmenn viðstaddir umræðuna, ráðherrar sömuleiðis og það er svo sem ekki nýtt. Ég held að við verðum líka að horfa í eigin barm í þessum efnum og átta okkur á því að umræða af þessum toga er okkur hér á hinu háa Alþingi líka mikilvæg. Og af því að hæstv. landbrh. gekk í salinn, þá veit ég ekki betur en svo sé enn að ekki einn einasti hv. þm. eða hæstv. ráðherra úr öðrum stjórnarflokknum ætli að vera þátttakandi í umræðunni þó að hæstv. félmrh. hafi verið hér nærri í allan dag. Ég kalla þess vegna eftir því hvort ekkert verði þaðan að heyra.

Herra forseti. Mér eru ofarlega í huga samskipti þings og framkvæmdarvalds. Ég vil rifja það upp að ekki fyrir margt löngu, raunar fyrir réttum tveimur árum eða þar um bil, birtist skýrsla þáv. og núv. hæstv. forsrh. um stöðu þings gagnvart hlutafélögum í eigu ríkisins. Tilefni þeirrar skýrslu voru fyrirspurnir sem fram voru lagðar vegna tiltekinna þátta í rekstri Póst- og símamálastofnunar sem um þær mundir var breytt í hlutafélag, algerlega raunar í eigu ríkissjóðs sem sú stofnun er enn í dag en hefur verið skipt frá því það var, í Landssímann annars vegar og Íslandspóst hins vegar sem eru 100% í eigu ríkissjóðs. Þar var niðurstaða skýrsluhöfundar, sem ef ég man rétt hæstv. forsrh. gerði að sinni, að um leið og sjálfstæð ríkisfyrirtæki yrðu gerð að hlutafélögum væri skorið á tengsl Alþingis og þeirra hvað varðar eðlilega upplýsingamiðlun og að málefni hlutafélaga lytu ekki lengur umræðu um opinber málefni heldur lytu þau almennum lögum svo sem lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög o.s.frv. Það væru ekki lengur bein stjórnsýslutengsl eða bein tengsl á milli þessara hlutafélaga í eigu ríkissjóðs og aftur þingskapa og réttinda þingmanna til þess að afla upplýsinga, hvað þá heldur tengsl 14. gr. stjórnarskrárinnar um eftirlitsskyldu þingsins með framkvæmdarvaldinu.

Ég fæ ekki séð, herra forseti, þó að á því sérstaka álitamáli sé ekki tekið í þessari viðamiklu skýrslu eftir því sem ég fæ best séð, en það kveði að því leytinu til við dálítið annan tón í niðurstöðu þessarar nefndar þegar kemur að rétti Alþingis og þingmanna til upplýsinga en gerði hér ekki fyrir margt löngu og að réttur þingmanna til að fá upplýsingar um gang mála hjá framkvæmdarvaldinu og undirstofnunum þess sé öllu rýmra túlkaður en áður hefur verið gert. Það hefur nefnilega stundum borið við af hálfu framkvæmdarvaldsins að menn hafa á þeim bæ vísað til almennra upplýsingalaga og nánast fullyrt að réttur þingmanna til að fá upplýsingar um gang mála af hálfu framkvæmdarvaldsins sé í raun hvorki meiri né minni en almennings í krafti upplýsingalaga. Hér er hins vegar kveðið sterkar að orði eins og ég tel vera rétt og hef haldið mjög ákveðið fram að réttur þingmanna hlýtur að vera talsvert meiri í samræmi við grundvallarákvæði stjórnarskrár.

Það var rifjað upp í umræðunni að menn hafa gengið svo langt að bera því við að það að veita upplýsingar um einstök málefni framkvæmdarvaldsins og stofnana fyrirtækja þess gæti skaðað samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja. Það gætu þess vegna ekki verið opinber málefni í þeim skilningi. Á hinn bóginn hefur það oft verið boðið við þessar kringumstæður af hálfu einstakra þingmanna sem hafa sótt eftir þessum upplýsingum að þeir væru tilbúnir til að undirgangast þagnarskyldu vegna þess arna en það hefur engu breytt. Þess vegna fagna ég því að sérstakur kafli er tekinn saman um þetta mál þar sem farið er yfir þann rétt þingmanna og þingheims til upplýsinga af hálfu framkvæmdarvaldsins og því einnig velt upp að ef framkvæmdarvaldið metur það svo eða það sé sameiginlegt álit aðila að hljótt skuli fara, þá sé hægt að binda það trúnaði. Eins og kunnugt er, herra forseti, er það eingöngu utanrmn. sem hægt er að binda trúnaði af þessum toga og það er kannski ástæða til að skoða það í þingsköpunum alveg sérstaklega því að mér hefur fundist einstakir hæstv. ráðherrar í gegnum tíðina vera farnir að misnota þetta ákvæði og borið því við að um of viðkvæmar trúnaðarupplýsingar væri að ræða og þess vegna neitað þeim á hinu háa Alþingi. Þess vegna fagna ég því sérstaklega, herra forseti, að mönnum miðar í rétta átt hvað þetta varðar.

[17:30]

Í skýrslunni er fjallað um stöðu ríkisendurskoðanda --- ég verð að fjalla um þetta í stikkorðastíl vegna þess hversu naumur tími er skammtaður. Ég hef í þessum ræðustól hnykkt á því að mikilvægt sé að staða hans gagnvart Alþingi sé skýr og ljós og hlutverk hans sem tæki og tól Alþingis í eftirliti sínu með framkvæmdarvaldinu væri alveg kristalklárt. Á því er tekið með býsna afdráttarlausum hætti. Þetta geri ég alveg sérstaklega að umtalsefni vegna þess að á síðustu mánuðum og missirum hefur réttilega verið vakin athygli á því að ríkisendurskoðandi hefur tekið það til bragðs að setjast í nefndir framkvæmdarvaldins. Verið þar skipaður í nokkuð mörgum tilfellum í viðkvæmum álitamálum, síðast sem aðili að pólitískt skipaðri nefnd samgrh. þar sem reynt var að fara yfir verðmæti Pósts og síma og ýmis önnur álitamál í því sambandi. Í maímánuði var ríkisendurskoðandi einnig skipaður í nefnd heilbrrh. þar sem sú nefnd hafði það að hlutverk að gera drög að regluverki, formi og innihaldi samnings heilbrrn. og Íslenskrar erfðagreiningar hvað varðar gagnagrunninn. Hér finnst mér ríkisendurskoðandi vera á býsna gráu svæði svo ekki sé meira sagt því það gefur augaleið að til þess gæti komið, og mjög sennilegt satt að segja, að alþingismenn eða Alþingi óskaði eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar á síðari stigum slíkra mála þegar og ef að því kemur að þingmeirihluti tekur t.d. ákvörðun um að selja Póst og síma, þá er mjög líklegt að þingheimur og einstakir þingmenn vilji leita atbeina ríkisendurskoðanda í þeim efnum en þá er hann búinn að koma að málinu fyrr og orðinn vanhæfur.

Það sama gildir í rauninni um gagnagrunninn sem er pólitískt háhitaefni sem ég hefði talið eðlilegt að ríkisendurskoðandi hefði ekki komið að á fyrri stigum málsins og alls ekki á þeim stigum þegar framkvæmdarvaldið sjálft er að frumvinna málið, þetta sama framkvæmdarvald og ríkisendurskoðandi á að hafa eftirlit með í umboði Alþingis. Þetta er atriði sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að halda til haga.

Annað er það sem þingmenn hafa réttilega staldrað við. Það er staða sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa komið síðar inn í þetta almenna jafnræðisumhverfi hvað varðar rétt og skyldu til upplýsingalaga, almenn ákvæði stjórnsýslulaga og verið kannski að því leytinu til skemmra á veg komin. Þau lúta nú sömu lögmálum og er ástæða til að knýja á um að þau sinni þeim skyldum sem lög kveða á um með sama hætti og ríkisvaldið.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála því í tilfellum sveitarfélaga og líka undir ákveðnum kringumstæðum ríkisvaldsins að við eigum að loka alveg augunum fyrir því að ævinlega verður um matskenndar ákvarðanir að ræða og í sumum tilfellum á það að vera þannig, einkum og sér í lagi þegar um pólitískar ákvarðanir er að ræða. Við lifum í lýðræðissamfélagi og hinn endanlegi stóridómur verður aldrei til lykta leiddur í dómsölum eða úrskurðum einstakra aðila í embættismannakerfum hvort sem það er umboðsmaður Alþingis, umboðsmaður barna eða ríkisendurskoðandi heldur hlýtur hinn endanlegi stóridómur að vera kveðinn upp í kosningum hverju sinni. Við skulum ekki ræða þessi mál undir svo þröngu sjóngleri að öll pólitísk álitaefni eigi að fara í fastmótaðan fyrir fram ákveðinn farveg.

Herra forseti. Gráu svæðin eru allt of mörg og þau verða sennilega alltaf til þegar kemur að lagasetningu. Ég legg til að mynda mikla áherslu á það, herra forseti, að mér finnst hið háa Alþingi, raunar að frumkvæði framkvæmdarvaldsins, hafa farið býsna hratt fram úr sjálfu sér þegar komið er að þjónustugjöldum. Þau eru í því mæli sem nú er tiltölulega ný af nálinni og með réttu voru þau alloft kærð til umboðsmanns Alþingis og hingað komu ábendingar frá honum um að Alþingi hafi gengið of langt í setningu slíkra þjónustugjalda eða í setningu heimildar til þjónustugjalda, einkum og sér í lagi þegar ríkisvaldið var að hirða meiri peninga en kostnaður var af viðkomand þjónustu. Þá greip Alþingi til þess ráðs að búa til nýtt hugtak sem hét aukatekjur ríkissjóðs þar sem Alþingi taldi sig geta farið fram hjá því almenna ákvæði að þjónustugjöld stæðu undir kostnaði við þjónustuna, hvorki meira né minna, og þar hefur Alþingi og þingmeirihluti hverju sinni geta talið sig vera hólpinn í að hirða meiri tekjur af notendum þjónustunnar en sem kostnaði nemur. Í því sambandi vek ég athygli á svörum við fyrirspurn minni um útgáfu vegabréfa þar sem í ljós kemur að tekjur af útgáfu vegabréfa eru þrisvar sinnum meiri en kostnaðurinn við gerð þeirra. Þetta eru dæmi af þeim toga sem ég held að við höfum farið of langt.

Herra forseti. Eins og ég sagði get ég rétt stiklað á stóru. Ég er búinn að nefna á handahlaupum örfá atriði af fjölmörgum sem ég hef sett niður á blað. Ég held hins vegar að brýnt sé að umræðan haldi áfram á okkar vettvangi og tek því undir tilmæli og tillögur raunar sem kveða á um að málið fari til áframhaldandi umfjöllunar í allshn. og komi síðan aftur til umfjöllunar Alþingis.