Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:20:43 (4640)

2000-02-22 14:20:43# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. 11. febrúar sl. mátti lesa í Morgunblaðinu eftirfarandi ummæli höfð eftir Jóhannesi Gunnarssyni, lækningaforstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við finnum enga leið til að spara meira en gert hefur verið í rekstri slysa- og bráðadeildar og deilda sem styðja hana, þ.e. lyflækninga- og skurðlækningadeilda. Það má því segja að við höfum beitt ákveðinni útilokunaraðferð í þessari vinnu.

Því er ekki að neita að geðdeildin hefur ekki alveg sama sess í þessari slysa- og bráðaþjónustu og sumar aðrar deildir.``

Þetta eru skilaboðin, hv. þm. Katrín Fjeldsted, sem er verið að senda út til geðsjúkra og aðstandenda þeirra.

Herra forseti. Hér er í raun ekki deilt um fjárframlög upp á 50 eða 100 millj. kr. Þessi umræða snýst ekki um skæklatog, um krónur og aura, heldur snýst hún um stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, um forgangsröðun málaflokka og síðast en ekki síst hvar geðsjúkdómar og þjónusta við þá sem eiga við geðræn vandamál að stríða raðast í þeirri forgangsröð. Spurn eftir geðheilbrigðisþjónustu fer sívaxandi hér á landi. Góð viðbrögð almennings við átaki landlæknis vegna þunglyndis í upphafi þessa árs bera því glöggt vitni. Ískyggilegar tölur um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir færa okkur heim sanninn um nauðsyn öflugrar geðheilbrigðisþjónustu sem allir landsmenn hafi jafnan aðgang að.

Herra forseti. Endurskipulagning á rekstri stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík og hugsanlegur samruni þeirra má á engan hátt draga úr þjónustu við geðsjúka. Hæstv. heilbrrh. verður að sjá til þess að innanhússpólitík stóru sjúkrahúsanna leiði ekki til þess að notkun hátækni við lækningar sé aukin á kostnað þjónustu við geðsjúka, hæstv. heilbrrh.

Hæstv. heilbrrh. getur heldur ekki vikist undan því að taka pólitíska ábyrgð á forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.