Fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 14:23:08 (4641)

2000-02-22 14:23:08# 125. lþ. 68.94 fundur 335#B fyrirhugaður niðurskurður á þjónustu við geðsjúka# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna yfirlýsingum hæstv. heilbrrh. í þessari umræðu. ,,Þjónusta mun ekki dragast saman.`` Ég skil þessa yfirlýsingu þannig að hæstv. ráðherra mun ekki samþykkja 50 millj. kr. sparnað í þjónustu við geðsjúka og hæstv. ráðherra sagði einnig að þjónustan í Arnarholti og Gunnarsholti verði ekki lögð niður. Það er ánægjuefni. En ég verð að geta þess hér að tillögur eins og þær sem hafa verið í umræðunni um um 100 millj. kr. niðurskurð og nú í dag 50 millj. kr. niðurskurð á þjónustu við geðsjúka hefur mjög mikil og alvarleg áhrif á þessa þjónustu, á geðsjúka, á aðstandendur þeirra og á starfsmenn sem starfa við geðheilbrigðisþjónustu. Mikil orka starfsmanna fer í varnarbaráttu eins og við þekkjum fyrir skjólstæðinga sína og einnig aðstandenda. Þessi málaflokkur þolir ekki samdrátt í þjónustu. Hvort þjónustan er í einu húsi eða öðru er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að þetta fólk fái þjónustu við hæfi og að áfram verði geðheilbrigðisþjónusta í tengslum við bráðamóttöku sjúkrahúsa eins og er á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Svo verður áfram samkvæmt orðum heilbrrh. og ég fagna því.

Barnaspítalamálið ætla ég ekki að draga inn í þessa umræðu né ósmekklegar dylgjur annars þingmanns Framsfl. í Reykjanesi, sem greinilega var með vitlausa ræðu í þessari umræðu, um málefni barnaspítalans.

Herra forseti. Skilaboðin frá hæstv. ráðherra heilbrigðismála eru skýr eftir þessa umræðu. Það verður ekki dregið úr þjónustu og nú er að sjá til þess að staðið verði við þau orð því að þjónusta við geðsjúka þolir ekki niðurskurð.