Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 15:44:54 (4668)

2000-02-22 15:44:54# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að mér finnst tímabært að taka reglur um sölu áfengis til endurskoðunar, en ég held að það verði að gera á mun víðari grunni en lagt er til í þáltill. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson benti áðan á að þáltill. gengi út á að koma með tillögu um að endurskoða en gæfi sér síðan ákveðna niðurstöðu í því máli. Ég vil skoða málið út frá mun víðari grunni og bendi aftur á að það eru fjórar leiðir sem eru notaðar til að stýra neyslu á áfengi, þ.e. aldursmörk, reglur um auglýsingar á áfengi, lög og reglur um aðgengi að vörunni og verðlagning á áfengi. Ég vara við því að allar þær aðferðir verði notaðar í einu lagi til að breyta reglum um áfengi vegna þess að við verðum að geta skoðað áhrif einnar breytingar á neyslu á áfengi. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram. Ég vil hafa hana víðari og vona að niðurstaða verði í þessu máli. Það er kominn mikill þrýstingur í þjóðfélaginu að taka þetta til skoðunar og ég hef reyndar verulegar áhyggjur af þeim þrýstingi sem er núna á því að færa áfengiskaupaaldurinn niður og ég mun í ræðu minni á eftir færa rök að því af hverju afstaða mín varðandi áfengiskaupaaldurinn er sú að ekki eigi að lækka hann.