Reglur um sölu áfengis

Þriðjudaginn 22. febrúar 2000, kl. 16:28:32 (4677)

2000-02-22 16:28:32# 125. lþ. 68.5 fundur 149. mál: #A reglur um sölu áfengis# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 125. lþ.

[16:28]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vissulega hlýddi ég á framsöguræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Ég hlýddi á hvert einasta orð en það breytir því ekki að þáltill. er ekki vönduð. Hún gerir m.a. ráð fyrir því að heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum. Ég hefði óskað þess að þessi setning hefði ekki verið inni í tillögunni eins og hún er hér. Ég hefði líka óskað eftir því að ekki væri talað um breytta verðlagningu í tillögunni. Við þurfum að ræða þessi mál þannig að meira svigrúm sé til staðar en sú tillaga sem hér liggur fyrir gefur okkur.

Satt að segja, hæstv. forseti, fannst mér málflutningur frsm. tillögunnar bera keim af bannárunum umfram það sem mér finnst eðlilegt þegar við ræðum um þessi mál árið 2000. Ég tók mjög eftir þeim tón í ræðu hans sem laut að bannárunum og um afleiðingum þeirra. Herra forseti. Í dag erum við ekki að fást við afleiðingar bannáranna. Við erum að reyna að hefja þessa umræðu til vegs á vitrænum nótum. Við verðum að geta talað saman án þess að vera með ýfingar. Við þurfum að hafa þessi mál þannig úr garði gerð að það hægt sé að nálgast þau af varfærni. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir taldi þessa tillögu nógu varfærna en ég mótmæli því. Mér finnst hún ekki nægilega varfærin.