Fjarvinnslustörf í Ólafsfirði

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 14:50:11 (4755)

2000-02-23 14:50:11# 125. lþ. 70.1 fundur 245. mál: #A fjarvinnslustörf í Ólafsfirði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur spurst fyrir um hvað líði undirbúningi fjarvinnslustarfa á vegum Hagstofu Íslands í Ólafsfirði. Svar mitt er þetta:

Bæjarstjórinn í Ólafsfirði hefur lagt til að í því skyni að efla atvinnulíf á staðnum verði komið á fót miðstöð stjórnsýsluskráa í Ólafsfirði að norskri fyrirmynd. Að beiðni minni sem hagstofuráðherra og forsrh. hefur hagstofustjóri kannað þessa tillögu og haft um það samráð við ráðuneytisstjóra dómsmrn., fjmrn., iðnaðar- og viðskrn. enda snertir tillagan öll fjögur ráðuneytin. Helstu niðurstöður þessarar athugunar eru eftirfarandi:

1. Til álita kemur að setja á laggirnar skrifstofu eða fyrirtæki á Ólafsfirði sem yrði miðstöð nokkurra skráa sem sýslumenn færa og upplýsingagjafar úr þeim. Hér er m.a. um að ræða firmaskrár, skrá um lausafjármuni, kaupmála, eignarleigusamninga, gjaldþrot, skiptameðferðir, nauðarsamninga, greiðslustöðvanir og þess háttar. Væri þá gert ráð fyrir að frumskráning væri hjá sýslumönnum en upplýsingamiðstöð héldi utan um kerfið og stýrði aðgangi að og miðlaði upplýsingum úr því.

2. Annað verkefni slíkrar upplýsingamiðstöðvar gæti verið að annast söfnun, varðveislu, skráningu og miðlun upplýsinga úr ársreikningum fyrirtækja samkvæmt lögum um ársreikninga.

3. Eitt helsta verkefni skráningarstofu á Ólafsfirði og hugsanlega fjárhagslegur grundvöllur rekstrarins gæti verið að taka við, halda utan um og miðla á skipulegan hátt því mikla magni upplýsinga sem berst til landsins á rafrænan hátt og snertir viðskiptahagsmuni íslenskra fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Hér er fyrst og fremst um að ræða upplýsingar úr skrá Evrópusambandsins yfir opinber útboð á svæði evrópska efnahagssamningsins sem nú er eingöngu gefin út í rafrænu formi á netinu. Mikil vinna er fyrir einstök fyrirtæki að velja úr þau útboð sem þau telja athyglisverð en með sérsmíðuðum hugbúnaði er hægt að velja úr útboðsflokka og koma áleiðis til áskrifenda þjónustunnar.

4. Á hinn bóginn sýnist, eftir mikla athugun, ekki ráðlegt að beyta núverandi tilhögun félagaskráningar og slíta hana úr samhengi sínu. Í því sambandi verður að hafa í huga að skammt er síðan núverandi kerfi miðlægrar skráningar félaga var komið á fót í Hagstofu Íslands og var það ekki síst gert af hagkvæmnisástæðum bæði fyrir atvinnulífið og skráningarstarfsemina.

5. Við athugun þessa máls verður að gæta þess að uppsetning á nýjum heildarskrám og upptaka verkefna á vegum stjórnvalda hlýtur að ráðast af mati á þörf fyrir þær skrár og þau verkefni sem og með hliðsjón af kostnaðinum.

Þau verkefni sem hér hafa verið nefnd krefjast öll mikils undirbúnings. M.a. þarf að gera lögfræðilega athugun hvað snertir fyrirmynd skráarverkefna og leggja drög að verk- og fjárhagsáætlun. Þá þarf enn fremur að kanna hvaða rekstrarform geti hentað fyrir þessa starfsemi, m.a. hvort heppilegt sé að starfsemin sé í höndum einkaaðila eða geti eftir atvikum nýtt sér þá sérþekkingu sem verkefnin mundu skapa til frekari markaðssóknar í öflun úrvinnslu og miðlun upplýsinga. Byggðasviði iðn.- og viðskrn. hefur verið falið að kanna þetta mál nánar í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld og í samræmi við það sem að framan hefur verið sagt.

Þetta svar ber með sér að mál þetta hefur fengið mikla og góða athugun og að því hafa komið fjögur ráðuneyti til þess að undirbúa það vel. Við skulum átta okkur á því að ef menn ætla að koma starfsemi af því tagi sem hér er um að ræða fyrir annars staðar en í Reykjavík er afar þýðingarmikið að að því sé unnið skipulega og allir þættir séu grandskoðaðir þannig að menn séu ekki að tjalda til einnar nætur. Ég tel að þessi vinna sem einkum hinir fjórir ráðuneytisstjórar hafa komið að sé í góðum farvegi. Þó að ég vilji ekki tímasetja á þessu augnabliki nákvæmlega hvenær starfsemin geti hafist, þá er vinnan komin vel af stað og ákvörðun af því tagi hefur því verið tekin.