Fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa

Miðvikudaginn 23. febrúar 2000, kl. 15:54:07 (4783)

2000-02-23 15:54:07# 125. lþ. 70.6 fundur 269. mál: #A fjármögnunarkerfi sjúkrahúsa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir að varpa fram þessari fyrirspurn sem er mjög viðeigandi einmitt þessa dagana. Hér er spurt um afar mikilvægt mál sem mikill áhugi er fyrir hjá stjórnendum sjúkrahúsanna í Reykjavík, einnig hjá heilbrigðisstéttum eins og ályktanir stjórna sjúkrahúsanna í Reykjavík bera með sér og ýmsar skýrslur, m.a. frá hjúkrunarfræðingum og læknum á undanförnum mánuðum bera vitni.

Hugmyndin er að í stað þess að starfsemi sjúkrahúsanna verði fjármögnuð með föstum fjárframlögum eins og nú tíðkast þá verði fjármögnuninni skipt í þrjá þætti, fastar, breytilegar og árangursbundnar fjárveitingar. Ég vil vekja athygli á því að Ísland er eina landið í hinum vestræna heimi sem fjármagnar rekstur sjúkrahúsanna enn þá með föstum fjárlögum. Og með þessum breytingum í fjármögnun sem ég vonast til að verði að veruleika verður kostnaður við starfsemina ljós og fjármögnunin tekur mið af þjónustunni. Að því gefnu að samkomulag og sátt ríki milli aðila má gera ráð fyrir því að sá endalausi ágreiningur um kostnað við rekstur heilbrigðisþjónustunnar verði úr sögunni með nýju fjármögnunarkerfi.