Atvinnuleysi á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:56:32 (4842)

2000-02-24 13:56:32# 125. lþ. 71.94 fundur 346#B atvinnuleysi á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:56]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Enn á ný neyðast menn til að færa umræðu um málefni landsbyggðarinnar inn í sali Alþingis. Nú er það aukið atvinnuleysi á nokkrum stöðum á landsbyggðinni vegna lokunar og samdráttar nokkurra fiskvinnslufyrirtækja. Þessi þjóðarvandi, þjóðflutningar tæplega 10 þúsunda manna sl. fimm ár frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis, er til kominn vegna ákvarðana sem teknar hafa verið hér á hinu háa Alþingi með samþykktum og lögum um tvo höfuð\-atvinnuvegi þjóðarinnar sem víðast hvar eru undirstaða heilu byggðarlaganna. Hér á ég auðvitað við sjávarútveg og landbúnað. Ég tel að vegna þessara stjórnvaldsákvarðana verði stjórnvöld einnig að taka ákvörðun um hvað eigi að koma í staðinn.

Herra forseti. Bráðaaðgerðir eru nauðsynlegar í þessum málum. Ég tel að sértækar aðgerðir í gegnum skattkerfið séu fljótvirkustu aðgerðirnar til að snúa vörn í sókn. Nefna má t.d. aukinn persónuafslátt, auknar barnabætur, auknar afskriftir vegna atvinnusköpunar á landsbyggðinni, skattafslátt vegna aksturs til og frá vinnu, breytilegt tryggingagjald, breytingar á húsnæðiskerfinu o.s.frv. Þessar aðgerðir eru þekktar hjá nokkrum Norðurlandaþjóðanna.

Í febrúar 1999 var flutt þáltill. á hinu háa Alþingi um jöfnun lífskjara og aðstöðumunar eftir búsetu. Í þessari tillögu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem rannsaki hvernig unnt sé að jafna lífskjör og aðstöðumun fólks eftir búsetu með aðgerðum í skattamálum.``

Hver haldið þið að hafi verið 1. flm. þessarar þáltill.? Það var enginn annar en hæstv. núv. landbrh. Guðni Ágústsson. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er hann nú sem ráðherra að vinna að þessum málum innan ríkisstjórnarinnar?

Herra forseti. Það er gott og því fylgja miklir kostir að búa úti á landi. Við íbúar landsbyggðarinnar biðjum ekki um nein forréttindi en við krefjumst jafnréttis til lífskjara.