Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:07:56 (4866)

2000-02-24 17:07:56# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mín athugasemd við ræðu hæstv. umhvrh. lýtur að undanþáguákvæðinu. Ég ítreka, þar sem íslenska ríkisstjórnin sætir nú rannsókn fyrir Evrópudómstólnum, að það er engin undanþáguheimild í tilskipuninni sem heimilar að vikið sé frá kröfunni um mat á umhverfisáhrifum eftir að tilskipunin tók gildi og við höfum lögfest EES-samninginn. Það er alveg ljóst, herra forseti, að framkvæmdir í Evrópu hafa verið dæmdar í mat þó að þær hafi haft gömul leyfi. Þetta á hæstv. umhvrh. að vita og beygja sig undir.

En varðandi það sem hér hefur verið rætt, að skilgreina þurfi hvað er hafin framkvæmd, þá vil ég geta þess hér að í athugasemdum sem nefndinni sem samdi frv. bárust, m.a. frá Rarik, er þess getið og mikil áhersla lögð á að slík skilgreining þurfi að vera í lögunum og ekki sé eðlilegt að það sé geðþóttaákvörðun ráðherra hverju sinni.