Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 17:10:04 (4868)

2000-02-24 17:10:04# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[17:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. er afskaplega flinkur í að snúa málunum sér í hag og tönnlast á þessari ótrúlegu setningu, að lög séu ekki afturvirk.

Virðulegi forseti. Allir sem eru í þessum sal vita að lög eru ekki afturvirk. En deilan stendur ekki um það. Deilan stendur um það hvort undanþáguákvæði sem verið hefur í gildandi lögum og á nú að framlengja fram úr hófi til loka árs 2002 samrýmist EES-samningnum. Það er til skoðunar í útlöndum og hjá háum stofnunum. Það leysum við að sjálfsögðu ekki hér, herra forseti.

En að tönnlast á þeirri tuggu að lög séu ekki afturvirk er óþarfi. Það þarf ekki að segja það oftar í þessum ræðustól því að það vita allir hér inni.