Hrossaútflutningur

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:27:04 (4903)

2000-03-06 15:27:04# 125. lþ. 72.2 fundur 355#B hrossaútflutningur# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Mér finnst mjög varhugavert þegar menn fullyrða 50--90%. Við erum með mikinn atvinnuveg sem hestamennskan er og exemið er heilmikið vandamál og það snýr auðvitað að dýravernd. En það liggur líka ábyrgð hjá þeim sem kaupa hest. Það er t.d. ljóst að þegar helmingur þeirra sem hér í þessum þingsal sitja fer á sólarströnd kemur fluguskratti og bítur þá og það veldur kláða og ónæði með slæmum afleiðingum. Nú hefur það verið gert á vegum Félags hrossabænda að upplýsa þá sem kaupa hestana að það er líka á þeirra ábyrgð að fara vel með þá, eins og við gerum gagnvart okkur á sólarströndinni, fyrstu vikurnar.

En ég tek undir með hv. þm. að hér er mikið vandamál á ferðinni sem ber að fara í rannsóknir á. Í Framleiðnisjóði hafa verið lagðir til hliðar miklir peningar til að ganga í það vísindalega verk að reyna að finna mótefni gegn þessu biti þannig að það verði ekki til staðar, kannski bóluefni og að öll hross sem fara úr landinu verði bólusett. En þetta er auðvitað langtímaverkefni.

Það er verið að gera upp á milli tveggja umsókna og verkefnið í mínu ráðuneyti er hjá yfirdýralækni. Ég tel mjög mikilvægt að farið verði í þetta verkefni sem allra fyrst og að þessir peningar verði nýttir. Ég lít á þetta verkefni eins og að grafa skurð. Það þarf að hefja gröftinn og ráðast að meinsemdinni. Vonandi tekst samkomulag um það á næstu vikum hverjir fái þetta verkefni. Ég held að það þurfi að vinna þetta bæði hér heima og erlendis og mikill áhugi færustu vísindamanna á sviði ónæmisaðgerða bæði hér heima og erlendis er til að taka á þessu máli með okkur. (Forseti hringir.)

Við skulum, hæstv. forseti, ekki hræða atvinnugreinina um of.