Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:28:01 (4934)

2000-03-06 17:28:01# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ekki er hægt að skilja við þetta mál eins og það stendur nú. Hæstv. forsrh. hefur verið með dylgjur og yfirlýsingar sem búið er að svara í ræðu. Hann hefur ekki verið viðstaddur til að svara fyrir sig og þetta mál er þannig vaxið að ekki er hægt að sætta sig við að umræðunni ljúki núna. Ég fer fram á það, hæstv. forseti, að ég geti haldið áfram ræðu minni eftir að hæstv. forsrh. hefur mætt í þingsal svo við getum treyst á að hann geti brugðist við því sem hér hefur verið til umræðu og umræðunni því lokið eðlilega.

Ég bið um svör við þessu, hæstv. forseti.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að hæstv. forsrh. var viðstaddur þessa umræðu í líklega eina og hálfa klukkustund og tók þátt í umræðunum en hefur síðan vikið úr húsi. Forseti sér ekki ástæðu til að fresta þessari umræðu þar sem þetta er aðeins fyrsta umræðan af þremur.)

Hæstv. forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu enn, ég óska eindregið eftir því að umræðunni verði frestað og óska síðan eftir því að ég verði settur á mælendaskrá og lýk hér með máli mínu.