Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 17:52:21 (4942)

2000-03-06 17:52:21# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hefði út af fyrir sig ekki beðið um orðið ef ég hefði fengið viðbrögð frá hæstv. forseta við óskum mínum. Undir þær hefur verið tekið af starfandi formanni þingflokks Samfylkingarinnar. En ég tel, herra forseti, að hér sé um svo eindregin tilmæli að ræða að brýnt sé að fá fram, meðan ég stend hér, viðbrögð forseta við því hvort honum finnist þetta ekki eðlileg og sanngjörn ósk sem hægt sé að verða við. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði kemur margoft fyrir að óskað er eftir frestun á umræðum. Ég vil líka minna á að ég hef í þrígang beðið hæstv. forsrh. um að vera viðstaddan í þessari umræðu. Af því gat ekki orðið fyrr af ýmsum ástæðum og ég sætti mig vel við það.

Nú loks þegar kemur að því að hæstv. forsrh. getur verið viðstaddur þessa umræðu þá fer hann út úr húsi áður en umræðunni er lokið og mátti vita að ég var búin að biðja um orðið, ætlaði að svara ýmsu sem fram kom af hans hálfu og beina til hans fleiri spurningum. Bara miðað við þá röksemd, herra forseti, fyndist mér eðlilegt og sanngjarnt að verða við þessari ósk.

Ég óska eftir því og ítreka, herra forseti, að ef forseti getur ekki hugsað sér að fresta umræðunni þar til forsrh. getur verið viðstaddur þá fresti hann umræðunni þar til forsetar þingsins hafa haft tækifæri til að fjalla um eindregnar óskir nokkurra þingmanna. Ef niðurstaðan yrði sú að það sé ekki eðlilegt að fresta umræðunni þar til hæstv. forsrh. getur verið viðstaddur þá mun það liggja fyrir eftir að allir forsetar þingsins hafa fjallað um þá eindregnu ósk sem hér hefur komið fram. Ég fer því fram á málamiðlun. Ekki að herra forseti fresti málinu þar til hæstv. forsrh. geti verið viðstaddur, þó það sé auðvitað meginóskin, en núna að málinu verði frestað þar til forsetar þingsins hafi haft tækifæri til þess að fjalla um það. Hér er verið að gefa fordæmi sem hlýtur að lúta að bæði óbreyttum þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu og líka ráðherrum. Það er verið að gefa ákveðið fordæmi því að þó ég hafi lengi verið í þingsölum minnist ég þess ekki að svo sanngjörn ósk hafi verið virt að vettugi af hálfu forseta þingsins. Ég geri mér enn og aftur vonir um að forseti sýni þá sanngirni að verða við þeim óskum sem hér eru settar fram. Ég held að það hljóti að vera þinginu til góðs að þingmenn geti búið við vinnubrögðin hér.