Lyfjalög og almannatryggingar

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:05:31 (5103)

2000-03-09 11:05:31# 125. lþ. 76.1 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:05]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hef hug á að fræðast aðeins nánar hjá hæstv. heilbrrh. varðandi það mál sem hér ber á góma í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Það er um náttúrulyfin og hugleiðing mín er í rauninni á þá lund að nú vitum við að framkvæmdar hafa verið rannsóknir hjá Háskóla Íslands um lækningamátt lúpínu og ýmissa íslenskra lækningajurta. Það eru afskaplega áhugaverðar niðurstöður sem eru að koma þar fram.

Við vitum sömuleiðis að í samfélaginu er talsvert mikil umræða um náttúrulyf og verkan þeirra og við finnum í samfélaginu að það er kallað á reglur og skýrari stefnu í þeim málum. Mér þætti því fengur að því að fá hæstv. ráðherra til að ræða frekar um þær hugmyndir sem eru til umræðu í ráðuneytinu varðandi náttúrulyfin og hlut þeirra á markaðnum og hvernig Lyfjamálastofnunin ætti að fjalla um þau mál eða koma að málum náttúrulækninga.

Við vitum að náttúrulækningar eru gömul grein í landinu. Jurtalæknar hafa verið hér og stundað starf sitt í gegnum aldirnar og stundum hefur það verið þakkað og stundum hefur það verið í óþökk. Jurtalæknar hafa þurft að ganga undir nafninu skottulæknar og hafa oft á tíðum þurft að berjast gegn fordómum og kannski erfiðu rykti.

Mér finnst full ástæða til þess þegar lyfjalögin eru til umfjöllunar að við tökum þessi mál og ræðum þau ofan í kjölinn því að við vitum að í mörgum vestrænum ríkjum eru hómópatalækningar leyfðar og eru viðurkenndar. Það sama á við um alls kyns aðrar aðferðir sem við flokkum sem óhefðbundnar og þegar tækifæri er til að setja þessi mál öll í samhengi, þá held ég að full ástæða sé til að nýta það tækifæri. Ég hefði gaman af því í þessari umræðu að fá að vita aðeins frekar um ætlunarverk hæstv. heilbrrh. í þessum efnum. Hvar eru íslensku lækningajurtirnar og íslensk jurtalyf í því samhengi sem hér rætt?