2000-03-15 13:36:56# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að ræða þessi mál hér. Þó að út af fyrir sig sé vitað að málið komi til kasta þingsins fljótlega vegna lagasetningar sem þarf að fylgja þessari yfirlýsingu, þá er ekkert að því að eiga hér utandagskrárumræður jafnframt um málið, enda mikilvægt.

Ég er þeirrar skoðunar að þeir kjarasamningar sem gerðir voru á dögunum, verði þeir upphaf að öðrum slíkum kjarasamningum í landinu, geti leitt til þess að kaupmáttur launafólks haldist og aukist núna fimmta eða sjötta árið í röð. Ef það tekst hefur það aldrei tekist fyrr í sögunni. Kaupmáttur þessa fólks hefur eins og kunnugt er aldrei vaxið jafnört, jafnmikið og jafnörugglega og á þessu skeiði. Það er líklegt og vonandi að þessir samningar tryggi það einnig.

Það er einnig gleðiefni að á sama tímabili fram að þessu hefur okkur tekist að hækka kaupmátt bóta í landinu lítillega umfram launavísitölu, þ.e. kaupmáttur sem hefur vaxið um 22% hefur einnig vaxið svo hjá þeim sem njóta bóta. Þetta hefur aldrei áður gerst í sögunni heldur. Það er afar þýðingarmikið að við höldum áfram á þessari leið, en ekki hinni þar sem kaupmáttur bóta þessara hópa hrundi ár frá ári eins og menn þekkja og óþarft er að rifja upp hér og nú.

En í hverju felst yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er varðar þá hópa sem hv. þm. gerði að umtalsefni? Þegar bætur voru síðast hækkaðar um áramótin um 3,6% voru laun á almenna markaðnum ekki að hækka neitt, að vísu voru bætur hjá hinu opinbera eða laun hjá opinberum starfsmönnum að hækka um 3%. Engu að síður var ákveðið að fylgja þar eftir hækkun hjá opinberum starfsmönnum um 3,6%, rúmlega 3%, en bíða ekki eftir heildarkjarasamningum annars staðar. (ÖJ: Launavísitalan var 6,8%.) Ég þagði nú, hv. þm., þegar þú varst í ræðustólnum. Núna gerist það hins vegar að samið er á ákveðnum hluta markaðarins, ekki stórum hluta heldur ákveðnum hluta markaðarins. Færa mætti rök fyrir því að bíða með hækkun bóta þar til meiri mynd væri komin á kjarasamninga í landinu. Nei, það er ekki gert. Fyrir áeggjan verkalýðshreyfingarinnar m.a. er ákveðið að strax við þessi tímamót komi sú hækkun inn sem sá kjarasamningur tryggir til handa bótaþegum einnig og það er gengið örlítið lengra með sama hætti og gert var um áramótin, og þess gætt að vera alltaf þeim megin við bilið. Þetta sýnir og sannar að ríkisstjórnin ætlar sér og hefur fullan hug á að fylgja því eftir með hörku að kaupmáttur bóta þeirra sem slíkra bóta njóta megi halda áfram að eflast, halda áfram að hækka en ekki falla á nýjan leik eins og gerðist stundum áður fyrr.

Fyrir utan það að kaupmáttur hafi fylgt launavísitölu og rúmlega það hafa síðan verið gerðar ýmsar breytingar til lækkunar á jaðaráhrifum sem hafa kostað ríkissjóð um 690 millj. kr. sem þýðir í raun um 4% hækkun til viðbótar þeim hækkunum sem þegar eru fram komnar. Það er afar þýðingarmikið að þetta haldist.

Í þriðja lagi er ljóst að vegna yfirlýsingarinnar sem gefin var í tilefni af kjarasamningum Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins var ákveðið að hækka persónuafsláttinn og er ljóst að hann kemur stórum hópi þeirra sem njóta bóta einnig til góða við þessar aðstæður. Þessi yfirlýsing er því afar þýðingarmikil fyrir þá sem njóta bóta í landinu. Auðvitað vitum við að þær bætur eru lágar. Öll vildum við hafa þær miklu hærri. Það er enginn meira góðmenni en annar í þessum sal hvað það varðar hvernig sem menn slá sér á brjóst. Aðalatriðið er þó að kaupmátturinn fái að aukast, eflast og styrkjast og það er það sem við erum að standa fyrir með þessari yfirlýsingu.

Ég vek athygli á því vegna þeirra talna sem hv. þm. fór með varðandi verðbólguna að Seðlabankinn hefur spáð því að verðbólgan á þessu ári verði 3,8% og það er kannski rétt að hafa það í huga miðað við þær tölur sem hv. þm. hafði uppi í ræðu sinni áðan. Í heild fagna ég því að þessi áfangi hafi náðst. Það gefur okkur vonir um að við náum að tryggja það framvegis að kaupmáttur bóta launafólks haldi áfram að hækka.

Hitt atriðið, sem við höfum margoft rætt áður í þessum sal og gerðist fyrst 1997, er að þegar taxtar voru hækkaðir um 25% eða svo hækkaði launakostnaður atvinnulífsins um 4% vegna þess að afar fáir voru á þeim töxtum lengur. Þetta er rétt að hafa í huga þegar menn hengja sig í þennan samanburð.