Póstburður

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:04:42 (5308)

2000-03-15 14:04:42# 125. lþ. 80.1 fundur 324. mál: #A póstburður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Markmið laga um póstþjónustu frá 1996 er að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt. Jafnframt er kveðið á um að íslenska ríkið skuli tryggja landsmönnum reglulega grunnpóstþjónustu vegna ákveðinna sendingartegunda sem eru nánar taldar upp. Áréttað er að þjónusta og gæðakröfur séu uppfylltar og tryggt sé að almenningur njóti aðgengi að grunnpóstþjónustu.

Enn fremur er kveðið á um að rekstrarleyfishafa sé skylt annast sérstök verkefni þótt þau séu ekki arðbær.

Herra forseti. Hvorki í lögum né reglugerðum er að finna ákvæði um að þjónustustig grunnpóstþjónustu sé skilgreint. Aðeins er kveðið á um að pósturinn komist endanlega á ákvörðunarstað óskemmdur, ekki búið að rífa hann upp og trúnaðar sé gætt.

Herra forseti. Í mínum huga á tíðni á dreifingu og afhendingu á pósti til móttakanda að vera skilgreind í grunnpóstþjónustu, sömuleiðis hve langur tími má líða frá því að póstsendingu er skilað inn til dreifingar og þangað til hún á að vera komin á áfangastað og þessi skilyrði eiga að vera altæk gagnvart landsmönnum öllum.

Herra forseti. Fyrir mig skiptir máli hversu lengi póstsending frá Siglufirði eða Vík í Mýrdal er að berast heim að Hólum í Hjaltadal eða hvaða annars húss eða bæjar á landinu. Það skiptir mig máli sem neytanda hversu langt er til næsta pósthúss og hversu víðtæk póstþjónusta þar er veitt. Fjöldi, dreifing og staðsetning pósthúsa á að vera skilgreind í leyfum til að reka grunnpóstþjónustu sem hluta af alþjónustu ásamt kröfum um opnunartíma, öryggi og póstlengd.

Herra forseti. Fyrir mér er það eitt grundvallaratriði póstþjónustu að allir landsmenn fái daglega póstdreifingu. Annað ætti að vera undantekning en mikið skortir á að svo sé. Ég leyfi mér því, herra forseti, að spyrja hæstv. samgrh.:

1. Hver skilgreinir og ákveður þjónustustig grunnpóstþjónustu í landinu og gætir þess að jafnræðis sé gætt í þjónustu gagnvart landsmönnum öllum?

2. Hverjar eru þjónustu- og gæðakröfur sem gerðar eru til póstþjónustu í landinu, m.a. þjónustu pósthúsa, tíðni póstdreifingar og þess tíma sem líður frá móttöku sendingar og þar til henni er skilað til viðtakanda hér innan lands?

3. Getur hæstv. samgrh. lagt fram tímasetta áætlun sem kveður á um skilgreinda eflingu póstþjónustu gagnvart öllum íbúum landsins óháð búsetu?

4. Hvenær verður komin á daglegur póstburður virka daga inn á öll eða flestöll heimili í landinu?