Póstburður

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:07:27 (5309)

2000-03-15 14:07:27# 125. lþ. 80.1 fundur 324. mál: #A póstburður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Sú fyrirspurn sem ég svara hljóðaði þannig á þskj. því sem dreift hefur verið á Alþingi:

,,Hvenær verður áætlun um póstburð alla virka daga til allra eða flestallra heimila í landinu komin til framkvæmda?``

Hv. fyrirspyrjandi mun eftir atvikum fá svör við þeim viðbótarfyrirspurnum sem hann bar upp í ræðu sinni í því sem ég segi hér. Svar mitt er á þessa leið:

Samgrn. hefur óskað eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að settar yrðu reglur um fimm daga póstþjónustu á dreifbýlissvæðum þar sem því verður við komið. Ráðuneytið stefnir að því að þessari þjónustu verði komið á innan tveggja ára. Póst- og fjarskiptastofnun mun á næstunni senda ráðuneytinu drög að reglum um póstútburð í dreifbýli og gera grein fyrir áætluðum heildarkostnaði.

Til að undirbúa setningu þessara reglna, sem nefndar voru, óskaði Póst- og fjarskiptastofnun eftir því að Íslandspóstur hf., sem er það fyrirtæki sem sinnir þessari þjónustu, veitti upplýsingar um núverandi dreifingu pósts og sér í lagi um landpóstaþjónustu í dreifbýli. Spurt var hvort breytingar þyrfti að gera á rekstri pósthúsa í dreifbýli ef pósti yrði dreift á öllum virkum dögum og hver yrði gróflega áætlaður kostnaður við slíka breytingu með tilliti til fjölda starfa, búnaðar og annars tilfallandi kostnaðar.

Í svari Íslandspósts hf. kemur fram að 5.641 heimili í dreifbýli fá póst með landpóstum og er árlegur kostnaður vegna þessa talinn vera um 140 millj. kr. Flest þessara heimila fá póst þrjá daga í viku en nokkur dæmi eru um tíðari dreifingu. Um 5% heimila fá póst fjóra daga í viku og um 22% heimila fá póst fimm daga í viku.

Í sambandi við fimm daga póstdreifingu má skipta heimilum í dreifbýli á eftirfarandi hátt:

1. Heimili sem nú þegar fá póst á hverjum virkum degi. Hér er um að ræða landpóstþjónustu út frá Akureyri, Borgarnesi, Dalvík, Hellu, Mosfellsbæ, Siglufirði og Vogum, í sumum tilfellum þó ekki á öllum leiðum frá viðkomandi stað. Í þessum flokki eru 1.250 heimili eða um 22% af fyrrnefndum 5.641 heimili.

2. Verið er að undirbúa fimm daga póstþjónustu á þessu ári á leiðunum út frá Borgarnesi, Hvammstanga, Hvolsvelli, Sauðárkróki og Selfossi. Munu þar með bætast 1.474 heimili við þau 1.250 sem nefnd eru að framan og þegar hafa þessa þjónustu. Í lok þessa árs má búast við að 2.724 heimili eða 48% heimila í dreifbýli njóti fimm daga þjónustu.

3. Í undirbúningi er að hefja fimm daga póstþjónustu á árinu 2001 út frá pósthúsunum á Akranesi, Blönduósi, Búðardal, Egilssöðum, Hellu og Húsavík, samtals 1.304 heimili, og verður þar með því marki náð að 71% af þeim heimilum sem landpóstar þjóna fá póst fimm daga í viku.

4. Eftir eru þá um 1.615 heimili sem eftir er að skipuleggja með tilliti til fimm daga póstburðar.

Áætlaður kostnaður við fimm daga póstþjónustu á þeim leiðum sem taldar eru undir töluliðnum 1--3 hér að framan, þ.e. vegna 71% heimila sem landpóstar þjóna í dag, er um 60 millj. á ári. Ekki er talið að rekstrarkostnaður þeirra pósthúsa sem hlut eiga að máli aukist nema óverulega en kostnaðaraukinn er vegna tíðari ferða landpósta. Lausleg kostnaðaráætlun við að dreifa pósti fimm daga í viku til þeirra 1.615 heimila samkvæmt 4. tölul. sem ég nefndi áðan er 30--40 millj. á ári.

Rétt er að taka fram að endurnýja þarf gildandi samninga við landpósta sem sumir hverjir renna ekki út fyrr en eftir árið 2002 eða jafnvel seinna. Til að mæta kostnaðarauka vegna fimm daga dreifingar pósts í dreifbýli telur Íslandspóstur hf. að þurfi gjaldskrárhækkun auk þess sem reynt verður að hagræða í landpóstaþjónustu.

Póst- og fjarskiptastofnun mun á næstunni í samstarfi við Íslandspóst hf. kortleggja hvernig koma megi á fimm daga póstdreifingu á þeim leiðum sem er ekki þegar verið að undirbúa ásamt því að komast að niðurstöðum um hvernig auknum kostnaði Íslandspósts hf. verði mætt.

Þá er rétt að geta þess að það hefur mikil áhrif á framkvæmd þessa máls hvernig snjómokstri verður háttað af hálfu Vegagerðarinnar um þær leiðir sem þarf að fara.