Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:55:04 (5328)

2000-03-15 14:55:04# 125. lþ. 80.4 fundur 382. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda Sigríði Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Við vitum að hér á landi höfum við einna flest sjúkrarými á sjúkrahúsum af öllum Norðurlöndum. Ég tel nauðsynlegt að leita allra leiða til að bæta nýtingu á þeim sjúkrarúmum sem fyrir eru, jafnvel til þess að fækka þeim og finna aðra valkosti. Sjúkrahótel þykja sjálfsagður hluti af þjónustu sjúkrahúsa víða um heim. Sjúklingar geta þá útskrifast og fengið þjónustu á lægra þjónustustigi þar sem þörfum þeirra er mætt á meðan þeir eru enn þá í meðferð og þurfa að vera í tengslum við sjúkrahúsið. Ég tel því að þetta sé kostur sem virkilega þurfi að skoða og ég veit að hann hefur verið skoðaður. Ég held að við þurfum að átta okkur á því að þarna er leið sem við getum farið til að minnka kostnað sjúkrahúsanna hér á landi.