Aðgengi að getnaðarvarnarpillu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:38:53 (5351)

2000-03-15 15:38:53# 125. lþ. 80.6 fundur 425. mál: #A aðgengi að getnaðarvarnarpillu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það gleður mig sérstaklega að hæstv. heilbrrh. virðist skrefi á undan okkur sem erum að vekja máls á þessu máli. Hún er þegar komin af stað með vinnuhóp til að greiða fyrir aðgengi að neyðargetnaðarvarnarpillunni og ég þakka það sérstaklega. Auðvitað á þessi pilla að vera aðgengileg öllum. Það þarf að vera enn þá meiri þekking meðal almennings og þá sérstaklega meðal unglinga, að ég tel, hvar hægt er að nálgast þessa neyðargetnaðarvörn. Þekkingunni þarf að koma á framfæri í skólum, en ekki bara í skólum því ekki eru allir unglingar í skólum. Svo þarf einnig að vera á heilsugæslustöðvum. Ég er mjög ánægð ef á að taka þetta út af lyfseðilsskyldu og gefa t.d. hjúkrunarfræðingum eða ljósmæðrum rétt til að gefa þessa pillu. Ég held að það sé vel og að alltaf eigi að nota tækifærið, þegar fólk nálgast þessa pillu, til að koma á framfæri þekkingu og áróðri fyrir frekari getnaðarvörnum.