Aðgengi að getnaðarvarnarpillu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:42:48 (5354)

2000-03-15 15:42:48# 125. lþ. 80.6 fundur 425. mál: #A aðgengi að getnaðarvarnarpillu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég fagna svörum ráðherra og tel til bóta að auka aðgengi að neyðarpillunni um næstu áramót. Ég vil benda á að Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir hafa um árabil barist fyrir bættu kynheilbrigðisástandi meðal ungs fólks á Íslandi. Samtökin hafa m.a. lagt sig sérstaklega fram um að koma upplýsingum um neyðargetnaðarvörn á framfæri, bæði við almenning og heilbrigðisstarfsmenn. Samtökin eiga þakkir skildar fyrir starf sitt en betur má ef duga skal. Hér þurfa heilbrigðisyfirvöld, skólayfirvöld, starfsmenn heilbrigðisþjónustu og menntastofnana, auk frjálsra félagasamtaka og samtaka unglinga og foreldra og unglingar og foreldrar að snúa bökum saman.

Ljóst er að tíðni óvelkominna þungana unglingsstúlkna hér á landi er há. Það þarf að grípa til sérstakra ráðstafana í þeim efnum og þar er aukið aðgengi að neyðarpillunni ein leið. Rannsóknir hafa sýnt að þvert á skoðanir margra leiðir aukin notkun neyðarpillunnar til ábyrgari notkunar öruggari getnaðarvarna.

Ég ræddi hér á undan um það hlutverk sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður gætu tekið á sig við útdeilingu á neyðarpillunni. Hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og læknar geta metið hvort rétt er að ávísa slíku lyfi, leiðbeint um rétta notkun hennar og gengið úr skugga um að þungun sé ekki þegar til staðar. Jafnframt eru þetta fagstéttir sem geta fylgt þeim krökkum eftir sem fá lyfjaávísun á neyðarpilluna með ráðgjöf og fræðslu um kynferðismál til að auka líkur á notkun öruggra getnaðarvarna í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar að veita eigi hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum rétt til að ávísa neyðarpillunni.

Ég tel afar mikilvægt að sérstakt átak verði gert til að vinna að bættu ástandi kynheilbrigðismála með sérstakri áætlun um fækkun á þungunum unglingsstúlkna, með aukinni fræðslu um kynlíf og barneignir og auknu aðgengi að getnaðarvörnum. Þar þarf sérstaklega að skoða bætt aðgengi að neyðarpillunni.