Löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 16:05:39 (5364)

2000-03-15 16:05:39# 125. lþ. 80.9 fundur 411. mál: #A löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er eitthvað sem kemur ekki heim og saman. Hæstv. dómsmrh. hefur það tæpa ár sem hún hefur gengt starfi lýst yfir ítrekað áhuga sínum á frekari hverfalöggæslu. Eftir sem áður linnir ekki látum og athugasemdum frá hverju sveitarfélaginu á fætur öðru þar sem hinu gagnstæða er haldið fram, nefnilega því að það dragi einmitt úr þeirri tegund löggæslu. Óþarfi er að tína dæmin til, ég vil þó gera það samt. Grindavík er nýlegt dæmi, Mosfellsbær og Seltjarnarnes, sem eru hér sérstaklega til umræðu, eru önnur dæmi og ástandið í Kópavogi er ekki heldur beint beisið og vísa ég til fyrri umræðu á síðasta ári um þau efni. Hér er eitthvað málum blandið og menn afgreiða ekki málið með þeim hætti að eitthvað sé á misskilningi byggt. Það er enginn misskilningur að í Mosfellsbæ er ekki um að ræða heimalöggæslu um helgar, þ.e. allan laugardaginn, laugardagskvöldið, aðfaranótt sunnudags og allan sunnudag. Hér dugir ekki fyrir hæstv. ráðherra að segja eitt en gera annað. Þetta er nú veruleiki hlutanna.