Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:45:18 (5403)

2000-03-16 12:45:18# 125. lþ. 81.4 fundur 377. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Viðskiptabönn eins og það sem alþjóðasamfélagið hefur sett á Írak hefur oft í sögunnar rás dugað til þess að knésetja harðstjóra og einræðisseggi af þeirri tegund sem Saddam Hussein er. Það var þess vegna ekkert skrýtið að menn skyldu velta því fyrir sér í upphafi að grípa til þess ráðs. Ég minnist þess að einn mætur flokksbróðir minn skrifaði einu sinni góða grein um það mál þar sem hann hvatti mjög til þess að slíkum aðferðum yrði beitt og nefndi og rökstuddi sérstaklega gildi þess að setja viðskiptabann á Írak. Um tíma var ég jafnvel nokkuð tekinn af þeim rökum.

Eigi að síður hef ég frá upphafi haldið við þá skoðun mína að viðskiptabannið á Írak þjónaði ekki tilgangi sínum. Og nú held ég að engum blöðum sé um það að fletta að sagan hefur sýnt að það þjónar ekki tilgangi sínum heldur öfugum tilgangi, þ.e. alveg eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði að umræðuefni í ræðu sinni áðan, að viðskiptabann á Júgóslavíu hafi styrkt Milosevic í sessi, þá hefur hið sama í reynd gerst innan Íraks. Það er varla hægt að draga aðra ályktun af því. Saddam Hussein hefur notað þá sem reka viðskiptabannið og eru helstu málsvarar þess sem grýlu til að sameina þjóð sína gegn andstæðingi utan frá. Þetta held ég, herra forseti, að hafi leitt til þess að staða hans hefur ekki veikst. Það mætti jafnvel færa nokkur rök að því að hún hafi á vissan hátt upp á síðkastið styrkst.

Það er alveg ljóst að þær staðreyndir sem fyrir liggja hníga allar að því að viðskiptabannið hefur leitt miklar hörmungar yfir þá sem eiga enga sök á þeim atburðum sem þarna gerðust. Það eru fyrst og fremst börn, aldraðir og sjúklingar sem eiga um sárt að binda. Fyrir liggur að í kjölfar Flóabardaga hafa dáið af völdum viðskiptabannsins sennilega 1,5--1,7 milljónir einstaklinga. Þetta er sex eða sjö sinnum fleiri en núlifandi Íslendingar.

Ég held, herra forseti, að við verðum að læra af reynslunni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta viðskiptabann sé blettur á Vesturlandaþjóðum og ég er algjörlega sannfærður um að nauðsynlegt sé að við gerum það sem við getum til þess að hrinda því.

Ég vissi ekki það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í ræðu sinni að það hefði næstum verið komið samþykki fyrir einhvers konar ályktun af því tagi innan Norðurlandaráðs en það hefðu verið íslenskir íhaldsmenn sem fyrst og fremst hefðu þar gengið gegn því. Það þykir mér miður, herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að íslenka þjóðin eigi að beita sér eftir megni að hrinda þessu viðskiptabanni.