Heimsóknir ættingja erlendis frá

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:15:56 (5450)

2000-03-20 15:15:56# 125. lþ. 82.1 fundur 389#B heimsóknir ættingja erlendis frá# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til utanrrh. vegna ótrúlega úreltra laga sem gilda um erlenda gesti sem koma hingað til dvalar hjá ættingjum sínum án þess að vera að koma hingað til að vinna. Íslendingar sem eiga erlent tengdafólk t.d. í öðrum löndum en EES-ríkjunum geta ekki fengið það í heimsókn til tímabundinnar dvalar nema fara að mjög úreltum aðferðum sem gera þessu fólki illmögulegt að fá þessa gesti og þeim að koma hingað.

Þeir fá þriggja mánaða dvalarleyfi í senn en ættinginn hér á landi verður að ábyrgjast ekki aðeins greiðslu farseðils fram og til baka heldur þarf að greiða fyrir fram inn á bankareikning 58 þús. kr. fyrir hvern mánuð, þ.e. áður en þeir fá leyfið.

Ég nefni dæmi um íslenskan mann sem er giftur konu frá Filipseyjum. Hann hefur verið giftur henni í 11 ár, á með henni tvö börn og á von á þriðja barninu sínu. Hann hugðist bjóða tengdaforeldrunum, þ.e. ömmunni og afanum, hingað til hálfs eða eins árs dvalar núna þegar þriðja barnið kemur í heiminn. Til að fá leyfið þarf hann að leggja út fargjaldið fyrir þau bæði og leggja 1.400 þús. kr. inn á reikning í banka til að tryggja framfærslu þeirra fyrir fram ef þau ætla að dvelja hjá honum í eitt ár eða 12 mánuði. Ef hann ætti konu frá EES-ríki eða ættingarnir væru að koma þaðan þyrfti hann hvorki leyfi né peninga inni á bankareikningi.

Þetta tel ég vera löngu úrelt ákvæði enda lögin frá 1965 og því spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki sé á döfinni að breyta þessum lögum því að með þessum reglum er verið að hindra heimsóknir ættingja t.d. nýbúa hingað því að fæstir eru með upphæðir sem þessar á lausu eða liggjandi á bankareikningum. Ég efast um, herra forseti, að við mundum sætta okkur við svona ef við værum að fara að heimsækja ættingja okkar í öðrum löndum.