Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:27:40 (5472)

2000-03-20 16:27:40# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um frv. það sem hæstv. sjútvrh. fylgdi úr hlaði. Það er þó sérstaklega varðandi seinni málslið 3. gr. þessa frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þá er óheimilt að stækka bát sem leyfi hefur til veiða með krókaaflamarki þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri.``

Hér höfum við þingmenn hlustað á það sjónarmið hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem túlkaði og flutti meirihlutaálit sjútvn. þegar þessum lögum var breytt. Hann fjallaði um það öryggissjónarmið sem mest var greinilega litið til þegar takmarkanir á stækkunum báta voru felldar úr gildi. Þó mætti kannski líka segja að það sé meginniðurstaðan af svokölluðu Valdimarsmáli, þeim dómi að ekki væri heimilt að hindra aðgang að auðlindinni og öllu því sem þá kom fram.

Ég hef líka hlustað á hæstv. sjútvrh. fylgja þessu úr hlaði og skýra þau sjónarmið sem liggja að baki þessum breytingum. Ekki hafði verið gert ráð fyrir því í fyrstu, eins og hæstv. ráðherra komst að orði, að þetta hefði þá fjölgun í för með sér sem raun ber vitni og með þessu frv. sé verið að stíga eitt skref til baka og binda þessar stærðir fast við 6 tonn og ekkert megi stækka. Ég vil því aðeins nota tækifærið og spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hér sé ekki komið dálítið harkalega í bakið á þeim sem töldu að breytingin mundi standa, þ.e. þegar þessi lög voru samþykkt í ársbyrjun 1999. Er ekki komið harkalega í bak þeirra með því að stoppa þetta af þarna og fresta um eitt ár?

[16:30]

Tökum dæmi af útgerðaraðila sem fór strax af stað og tók sig til og stækkaði bát sinn eða keypti nýjan. Hvað á að gera við þann bát sem hugsanlega yrði tilbúinn til veiða, við skulum segja fyrst 15. september eða einhvern tíma rétt eftir 1. september í ár? Ég vildi gjarnan heyra sjónarmið hæstv. sjútvrh. hér á eftir, hvort sá aðili fengi ekki þá þegar að fara á sjó og nota réttindi sín og þá fjárfestingu sem hann er búinn að leggja í og fara að róa. Eða á að skikka hann til þess að bíða í eitt ár með þessum breytingum?

Ég er ansi hræddur um, herra forseti, að hér sé verið að koma allharkalega í bakið á mörgum og vildi láta þetta sjónarmið koma fram í umræðum um frv. hæstv. sjútvrh. sem hér er fylgt úr hlaði, og ítreka því spurningu mína til hæstv. sjútvrh.: Hvað skal gera í þessum tilfellum? Það eru örugglega þó nokkuð mörg dæmi í landinu um menn sem treystu á þessa lagabreytingu sem hér hefur verið lýst og fóru af stað og stækkuðu báta sína.