Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:47:29 (5485)

2000-03-20 17:47:29# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:47]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég set alls ekki út á það að menn séu að koma með hugmyndir og leiðir. Ég er hins vegar ósammála því að menn eigi að ganga út frá því að hægt sé að halda áfram að mismuna mönnum í þeim leiðum sem menn vilja fara. Það er verið að halda áfram að handstýra þessu og skammta með þeim hætti sem ég tel að geti alls ekki gengið upp hvað varðar þau grundvallaratriði sem ég hef nefnt. Ég á við það þegar ég er að gagnrýna hluta tillagnanna sem hér liggja fyrir. Ég tel hins vegar góðra gjalda vert að menn vilji koma með nýjar hugmyndir. En ég verð að segja að ég er svolítið hissa á að hv. þm. skuli segja að hann hafi trú á því að Vatneyrardómurinn verði staðfestur, hafandi verið að mæla fyrir þessu fyrirbrigði sem hér er, því það gerir ráð fyrir að hægt sé að halda áfram að mismuna mönnum í þessum atvinnuvegi. Hv. þm. gerir líka ráð fyrir að á tiltölulega stuttum tíma verði menn búnir að koma sér upp öðru kerfi þrátt fyrir allt og sá afréttari sem er þarna á ferðinni er hugsaður fyrir tiltölulega stuttan tíma. Eins og ég segi finnst mér að menn eigi fyrst og fremst að fara að huga að almennum reglum sem geta dugað til framtíðar og hætta að reyna að finna eitthvert réttlæti í því kolómögulega kerfi sem er fyrir hendi.