Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:54:12 (5488)

2000-03-20 17:54:12# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en vil þó aðeins víkja að nokkrum atriðum sem komu hér fram. Við vorum búnir að skiptast á skoðunum um forsendur staðfestingar Vatneyrardóms eða ekki og ætla ég ekki að endurtaka það. Mig langar hins vegar að víkja að því ákvæði sem við leggjum til í þessari tillögu um að miðað við 12 klst. róðrarlag sé mönnum heimilt að fara tvær veiðiferðir til þess að telja sólarhringinn. Að þá sé það hægt með því að koma að landi innan 12 klst. og telja tímabilið í 12 klst. tímabili, ef menn fara hins vegar fram yfir þessar 12 klst. þá teljist það sólarhringur. Menn eiga því ekki neitt alfrjálst val þarna. Ég held samt að þetta sé til mikilla bóta út frá ýmsum sjónarmiðum séð, öryggissjónarmiði, eðlilegum vinnutíma sjómanna við fiskveiðar og margt fleira mætti vafalaust tína til.

Ég er ekki viss um að það tólf tíma ákvæði, sem við erum að leggja til, sé ákvæði sem eykur sóknarálag geysilega mikið. Í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar kom réttilega fram að meðan menn höfðu aðeins meira frelsi til þessara veiða keyrðu menn ekki eins skarpt og nýttu þessa daga ekki eins rosalega og þeir hafa verið að gera á undanförnum missirum þegar dagarnir eru komnir niður í 23. Við skulum heldur ekki gleyma því ef menn ætla sér að fara tvær tólf klukkustunda veiðiferðir, eða fara alveg yfir í öfgana að breyta 23 dögunum í 46 sjóferðir, þá þýðir það einfaldlega að í siglinguna að og frá landi, að því gefnu að menn séu að sækja á svipuð fiskimið og þeir hafa sótt, eyða menn helmingi meiri tíma. Menn fara sem sagt 46 sinnum á sjó og 46 sinnum í land. Ef ég færi þetta yfir á eitt einfalt dæmi eins og sjósókn frá Ísafirði og aðeins væri um færabát að ræða sem væri í þessu dagakerfi, og menn ætluðu að róa út að Aðalvík, 10--12 mílur undan, þá væru þetta um þrír tímar á hægfara báti, einn og hálfur á hraðfiskibát. Ef ferðin væri farin fjórum sinnum á sólarhring á hraðfiskibát þýðir það sex klst. í staðinn fyrir ef farið væri bara einu sinni á sólarhring og 24 tímarnir nýttir í botn, þá eru bara þrír tímar sem fara í siglingarnar. Þetta getur vegið í báðar áttir. Ég held hins vegar að það sé það mikið réttlætissjónarmið gagnvart þessum mönnum, ég tala ekki um gagnvart eldri sjómönnum, sem eiga báta í þessu dagakerfi, að ekki sé verið að pína menn til að nýta dagana með því að vera 24 tíma á sjó í hverri sjóferð. Mér finnst það ekki ná nokkurri átt. Þar að auki held ég að menn hafi séð það að menn hafa stundum verið að nýta þessa daga það mikið að menn hafa nánast verið með ofhlaðna báta.

Ég held að ekki sé rétt af hv. Alþingi að ýta undir slíka sjósókn, þó ekki væri frá öðru en öryggissjónarmiði, ég tala nú ekki um frá eðlilegu sjónarmiði þeirra manna sem eiga að stunda þá hörkuvinnu sem það er að veiða fisk á smábátum, að þeim sé ekki ætlað það að þurfa að vinna í yfir 20 tíma í striklotu.

Þetta vildi ég sagt hafa um þessi 12 tíma ákvæði. Ég held að eðlilegt sé að lagfæra þetta. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að meðan dagarnir voru fleiri, var sóknin ekki eins rosalega hörð og hún var þegar menn fóru að fækka dögunum. Það segir okkur það að reglur sem eru komnar í það umhverfi að menn eiga allt sitt undir atvinnu í tuttugu og þrjá sólarhringa á ári, teygja menn sig náttúrlega ansi langt á kostnað eigin starfsþreks og öryggis við fiskveiðar að þessu leyti. Þess vegna held ég að það sé eðlilegt sjónarmið að breyta þessu.

Auðvitað verðum við í öllum gjörðum okkar að reyna að útbúa reglur sem eru almennar. Ég geri mér alveg fyllilega grein fyrir því að í því frv. sem er aðeins ætlað að gilda til eins árs er verið að gera sérstakar lagfæringar fyrir hluta af flotanum. En það er verið að gera þær með hliðsjón af því að lagt er til að smábátaflotinn verði ekki kvótasettur og búi við það næsta fiskveiðiár meðan lögin eru í endurskoðun. Þess vegna er eðlilegt að sá hluti sjómanna sem er að gera út skip í almenna aflamarkskerfinu, hefur tiltölulega litlar veiðiheimildir, voru áður á skipum annarra útgerðarmanna sem hafa labbað út úr kerfinu með hagnaðinn sinn, ef hægt er að orða það svo, og ákveðið að selja öðrum eða sameina og taka út hlutaféð, selja hlutabréfin sín og orðið þess valdandi að margir sjómenn víðs vegar um landið hafa misst atvinnu sína og ekki átt annarra kosta völ en að reyna að bjarga sér með einhverjum hætti.

[18:00]

Þeir hafa valið að kaupa sér báta með tiltölulega litlar aflaheimildir og sumir keyptu báta fyrir kannski tveim, þrem árum síðan og reiknuðu með að geta gert út á steinbít. Síðan kipptu menn steinbítnum inn í kvótakerfið svona rétt til að hafa gaman af því, ekki af því að fyrir því væru nein fiskifræðileg rök, þau hafa ekki fundist enn. Við teljum því réttlætanlegt að gera eitthvað, þannig að meira jafnræði verði með mönnum þetta endurskoðunarár en er í dag.

Í því ljósi er þetta frv. lagt fram. Það er tímabundið eins og kom fram áðan en vonandi tekst mönnum að vinna að endurskoðun þessara laga og ná einhverri sátt um þau því allir þurfa á því að halda að lending náist um þessi mál, þó að ég geri mér auðvitað grein fyrir að sú lending sem ég vil sjá er ekki endilega sú lending sem þeir sem telja sig eiga milljarðana í sjóðnum sætti sig við.