Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:20:00 (5491)

2000-03-20 18:20:00# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mikinn greinarmun á því, hv. þm., hvort menn selja skip eða hvort menn selja atvinnuréttinn burtu. Það var einfaldlega þannig að fyrir daga kvótakerfisins, fyrir daga skrapdagakerfisins, seldu menn skip. Það var hins vegar þannig að þeir sem eftir voru í byggðarlögunum gátu drifið sig af stað á nýjan leik og þurftu ekki að sækja veiðiréttinn undir aðra. Nú er fyrirkomulaginu þannig háttað að ef menn vilja hefja útgerð þá skulu þeir sækja veiðiréttinn til annars manns eða annars félags, annarrar kennitölu. Eins og kemur fram í greinargerð okkar í Frjálslynda flokknum viljum við að mönnum verði gert jafnt undir höfði, að menn geti nálgast þessar heimildir eftir ákveðnum leiðum. Við viljum taka útgerðarflotann og skipta honum upp í a.m.k. þrjá aðgreinda útgerðarflokka, skilgreina strandveiðiflotann sérstaklega og útfæra stýrikerfi fiskveiða sem hentar strandveiðunum og hentar byggðunum og þar sem menn hafa ekki leyfi til þess að selja þennan rétt burtu frá byggðunum, hafi ekki með það að gera.

Varðandi stærri flotann höfum við sagt sem svo að eðlilegt sé að skipta frystiskipunum og stóru skipunum upp sér sem eru í alþjóðlegri samkeppni og vera með stýrikerfi á þau þannig að þau geti nálgast sínar aflaheimildir t.d. í gegnum uppboð. Það er hins vegar ekki hægt að sleppa því að stýra þessu uppboði algjörlega, hvorki varðandi útgerðir né skipaflota.