Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:32:06 (5569)

2000-03-21 21:32:06# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:32]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins endurtaka að það er ekki verið að bjarga fólki í neyð með því að lenda í beinu leiguflugi á flugvöllum úti á landi. Það er eins og hv. þm. hafi vantrú á því að það sé hægt að tollskoða flugvélar og láta fara fram vegabréfaskoðun ef það er úti um landsbyggðina. Því fer alveg víðs fjarri. Ég endurtek að það kemur ekki rekstri þessara flugvalla við hvort Schengen-samningurinn er tekinn upp eða ekki eins og er á Keflavíkurflugvelli.

Menn tala um í öðru orðinu að þeir hafi áhyggjur af biðröðum á Keflavíkurflugvelli en segja svo um í hinu orðinu að allir muni fara þangað og það muni kippa grundvellinum undan því að ná ferðafólki inn á landsbyggðaflugvellina. Því fer alveg víðs fjarri. Ég endurtek að ég viðurkenni sjónarmið þeirra sem eru á móti Schengen-samningnum en að blanda því inn í svo alls óskylda hluti og hér er gert, það skil ég ekki.