Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:34:37 (5571)

2000-03-21 21:34:37# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:34]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við þessa umræðu en kemst þó ekki hjá því vegna umræðna eða orðaskipta sem hér hafa orðið um stöðu millilandaflugs eða samgangna annars staðar en í Keflavík sem hér hefur af eðlilegum ástæðum verið mest til umræðu. Því er m.a. haldið fram af hv. þm. Jóni Kristjánssyni að þarna sé verið að blanda saman tveimur algjörlega óskyldum hlutum. Það er ekki svo. Þetta er praktískt mál sem ég vona að mér takist að útskýra fyrir hv. þingmanni að er svo. Það er einmitt full ástæða til þess að hafa af því áhyggjur hvernig framtíðarplön liggja í þessum efnum.

Það er að vísu alveg rétt að millilandaflug okkar Íslendinga hefur því miður þróast eins og raun ber vitni án þess að þar hafi Schengen-samningar komið til fram að þessu. Það er náttúrlega óheyrilega miðstýrt út frá þessum eina flugvelli á suðvesturhorni landsins sem er meinlegur galli og mikill ókostur fyrir ferðaþjónustuna í landinu í ýmsu tilliti. Það snertir vissulega ekki alla aðila þar eða alla þætti hennar því að þetta kerfi getur í sjálfu sér þjónað vissum hagsmunum ágætlega. En þeir hagsmunir byggja á þeirri aðferðafræði að taka alla ferðamenn inn í landið og senda þá úr landi aftur frá sama blettinum á suðvesturhorni landsins. Það þýðir að allar ferðir, um 95--98% erlendra ferðamanna sem koma til landsins og þeir verða sennilega í fyrsta sinn fleiri en þjóðin á því ári sem nú er nýhafið, hefjast og enda hér og þá fer það eftir því hversu marga daga menn dvelja í landinu hversu stóran hring út frá Reykjavík þeir geta farið á þeim tíma sem þeir hafa hér.

Þessu hafa menn haft mikinn áhuga á að breyta. Á þetta hafa fjölmargir bent í ferðaþjónustu, sérstaklega aðilar sem eru að reyna að koma fótum undir ferðaþjónustu út um landið, t.d. í þeim landshlutum sem fjærst liggja Reykjavík eins og á Norður- og Austurlandi. Það mundi gjörbreyta aðstæðum rekstraraðila á þessu sviði ef þó ekki nema einhver lítill hluti ferðamannanna að þessu leyti ferðaðist samkvæmt öðru munstri um landið, kæmi t.d. inn í landið á suðvesturhorninu en færi út í gegnum flug segjum frá Egilsstöðum eða Akureyri eða öfugt. Menn undrar nokkuð varðandi jafnmiklar flugsamgöngur og eru t.d. yfir háferðamannatímann þegar lendingar með ferðamenn í Keflavík nálgast kannski 100 á viku --- eða svo dæmi sé tekið þá er þetta í viku hverri kannski komið í 25--30 flug á Kaupmannahöfn eina saman --- að ekki skuli a.m.k. lítið hlutfall þessara samgangna geta byggst upp frá öðrum flugvöllum.

Ég tel að í þeim tilraunum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum til að breyta þessu eitthvað og eru ekki mjög margar hafi aldrei verið nein alvara því miður. Það læðist meira að segja að manni sá grunur að þær hafi sumar hverjir verið látnar mistakast viljandi vegna þess að það hafi ekki verið raunverulegur áhugi hjá þeim sem til hefðu þurft að koma til að breyta þessu munstri. Hvað sem hver segir og þó að sjálfsagt megi færa fyrir því rök að það sé hægara sagt en gert og það sé af ákveðnum hagkvæmnisástæðum sem þetta hafi byggst upp svona, þá verður hinu ekki mótmælt að þetta er fyrirkomulag sem er geysilega óhagstætt fyrir þá sem eru að reyna að reka ábatasama starfsemi á sviði ferðaþjónustu í öðrum landshlutum. Það er svo. Þetta kerfi mylur fyrst og fremst undir þá sem útgerðinni stjórna héðan frá þessu horni.

Þetta er líka mjög óhagstætt í umhverfislegu tilliti því að með öðruvísi samgöngumynstri gæfist kostur á dreifa betur álaginu af ferðamennskunni, jafna henni út á landshluta, draga úr þeirri hrikalegu umferð og því mikla álagi sem er orðið á ákveðnum vinsælum ferðamannastöðum á suðvesturhorninu og gera fleiri svæði og landshluta að virkum þátttakendum og helst heilsársþátttakendum í ferðaþjónustunni. Þess vegna er það ekki að tilefnislausu finnst mér að draga það inn í þessa umræðu hér að núna liggja fyrir fjárfestingaráform í flugstöðinni í Keflavík og þar í kring upp á upphæðir af því tagi sem ég hef nefnt í minni ræðu og hefur ekki verið mótmælt og verður ekki mótmælt því að ég er með þau gögn í höndunum. Um er að ræða beinar fjárfestingar af stærðargráðunni 7--8 milljarðar kr. á næstu 15 árum. Aðspurðir segja þeir sem þarna véla um frá Framkvæmdasýslu ríkisins og aðilar úr ferðaþjónustunni, að inn í þessar áætlanir komi engin áform um neinar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum á landsbyggðinni, engar, og ég held að hv. þm. Jón Kristjánsson hljóta að verða að viðurkenna að menn hafa stundum sagt einhver orð úr ræðustóli á Alþingi af minna tilefni. Svo kemur hv. þm. og getur reynt að segja: ,,Já, en þetta kemur Schengen ekki við.`` En það er bara ekki þannig. Það hvernig aðstaða er til að takast á við þetta nýja umhverfi á flugvöllum og í höfnum úti á landi er stórt praktískt mál með tilkomu Schengen.

Það er að vísu rétt að við núverandi aðstæður t.d. á Egilsstaðaflugvelli er hægt að taka á móti einstökum flugvélum. Það er hægt með fyrirvara að fá þar inn mannskap og ég geri ráð fyrir því að hægt sé að koma þar upp tölvubúnaði og reka hann í samband og hafa þar eitt eða tvö hlið sem ræður kannski við það að taka eina flugvél inn í flugstöðina ef hún er tóm að öðru leyti. En ég er ansi hræddur um að málin vandist ef þannig háttaði til að á sama tíma væri í flugstöðinni mikil umferð vegna innanlandsflugs því sú flugumferð er eðli málsins samkvæmt innansvæðisumferð. Þá kemur að því að halda verður farþegunum sem koma með millilandaflugvélinni utan frá aðskildum frá hinum vegna þess að þeim má ekki blanda saman og ætli þá fari ekki að verða þröngt um. Hvar á þá að setja upp eins og kannski fjögur hlið til þess að það taki ekki marga klukkutíma að tína þessa farþega inn í Schengen, skoða hvert einasta vegabréf og slá því upp í hinu samræmda upplýsingakerfi? Ég bið guð að hjálpa mér ef millilandaflugvélarnar væru tvær og svo væri eins og einn Fokker líka á vellinum. Jafnvel þó að segja megi að á Egilsstöðum sé möguleiki á að taka inn stök flug af þessu tagi, þá er alveg augljóst mál að t.d. við núverandi aðstæður, bæði á Egilsstöðum svo ég tali ekki um á Akureyri, geta skapast mjög mikil vandræði vegna þrengsla og vegna þess að það er erfitt að koma við þeim búnaði sem mun þurfa að setja þarna upp ef þar á að staðaldri að vera til staðar viðbúnaður til þess að mæta umferð af þessu tagi. Á Akureyri er þetta praktískt mál. Þangað hafa verið undanfarin sumur allmörg leiguflug frá landi sem verður utan Schengen, nánar tiltekið Sviss. Þar koma þotur með 110--150 farþegum og þær lenda gjarnan þar á sama tíma og innanlandsflug er á staðnum. Ærin vandræði hafa nú þegar skapast þó ekki bætist síðan við sá aðskilnaður sem á grundvelli þessa þarf síðan að gera á þeim farþegum sem eru utan og innan svæðisins. Bara sá praktíski þáttur einn að taka þessa farþega inn í landið án þess að það taki óratíma og að slá þeim öllum upp í upplýsingakerfinu kallar á heilmikla aðstöðu eins og við sjáum best á því að nú telja menn ekki minna duga í Keflavík en 22 hlið til þess að mæta umferðinni á morgnana, t.d. þeirri sem kemur vestan um haf. Og eigi þessir flugvellir ekki að vera stórkostlega takmarkaðir, ég neyðist því miður til að segja, herra forseti, nánast úr leik í samkeppni að þessu leyti í umferð á komandi árum eins og þetta blasir við mér, þá sýnist mér að það þurfi að gera miklar ráðstafanir sem ekki er stefnt að eins og málin standa í dag þar sem menn eru að reyna að sleppa frá þessu með þeim einfalda hætti að segja: ,,Þetta bjargast. Þetta verður hægt. Það er hægt að koma þessu við`` o.s.frv. Ég tel það ekki metnaðarfull svör fyrir hönd þessara staða eigi þeir að eiga einhverja möguleika í þessari samkeppni.

Sama gildir í verulegum mæli um hafnirnar. Þetta er spurningin um það að inntaka þessara farþega inn á svæðið sé gerleg á nægjanlega skömmum tíma til þess að menn standi í því. Og menn verða að átta sig á því að þarna ráðum við engu um kröfurnar. Þær eru settar af Schengen og við verðum að uppfylla þær kröfur um skoðun á hverjum einasta farþega sem inn á Schengen-svæðið er að koma og slá honum upp í upplýsingakerfinu því ef þar kynni að vera í hópnum einhver skúrkur sem kominn er á skrá í einhverju af þessum löndum þá þarf að fletta honum upp, slá inn hans nafn og númer og þá kunna að blikka gul eða rauð ljós ef þarna er einhver hæpinn pappír á ferðinni. Ég ætla ekki hér að fara að gefa slíkum mögulegum sökudólgi nafn eins og stundum var gert í utanrmn. Það kynni að misskiljast sem fordómar ef ég færi að hafa þá hluti eftir. En menn notuðu ýmis vinnuheiti á þá einstaklinga sem kynnu að vera að slæðast hingað til landsins, hugsanlega á hæpnum forsendum eða vafasömum pappírum o.s.frv.

[21:45]

Herra forseti. Ég vil nefna eitt enn í þessu sambandi sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Jón Kristjánsson skilji líka mætavel og það er mögulegt varaflugvallarhlutverk þessara flugvalla. Hvað gerðist nú ef allt í einu yrði ófært í Keflavík og búið væri að setja stærri eldsneytisslöngu á Egilsstaðaflugvelli en þar er nú? En hún nægir svona rétt til þess að flytja mjólkina úr einni kú per tíma, svo lítill er vökvinn sem um hana rennur. Og það er t.d. ein ástæðan fyrir því að menn hafa afskrifað í raun og veru Egilsstaðaflugvöll sem mögulegan varaflugvöll sem nái máli eftir reynsluna af honum núna í vetur af því að auðvitað dugar ekki að það sé verið að kjótla eldsneytinu á stórar vélar sem taka tugi þúsunda lítra í einhverjum tebollum. Það gengur ekki.

En segjum svo að búið væri að bæta úr þessu en síðan kæmi upp sú praktíska staða að einar þrjár eða fjórar vélar sem væru að koma vestan um haf gætu ekki lent í Keflavík. Þá er í reynd varaflugvöllur okkar númer eitt á Egilsstöðum, eins og stefnan var mörkuð á sínum tíma með uppbyggingu þess vallar fyrir háar fjárhæðir og með ágætri 2000 m flugbraut sem ég veit að hv. þm. þekkir. Það er úti í hafsauga að taka slíkan flota niður á Egilsstöðum við núverandi aðstæður ef ekki verða gerðar verulegar ráðstafanir til þess að til staðar sé búnaður eða a.m.k. að fljótlegt væri að drífa í gang aðstöðu þar sem hægt verði að afgreiða farþega í mörgum hliðum samtímis og með umtalsverðum mannafla og búnaði. Allt þetta þarf að geta gerst á mjög skömmum tíma því að ef vélin lendir á Íslandi og farþegarnir koma inn í landið þá koma þeir inn á Schengen. Það er ekkert val í þeim efnum.

Annaðhvort er til staðar landamærastöð eða ekki sem uppfyllir þær kröfur sem hinar sameiginlegu reglur setja. Það er þannig. Og það verða engar b- og c-stöðvar leyfðar í þessu kerfi, ég hef hvergi rekist á það, þó að slíkt kerfi væri búið til hér til bráðabirgða í sambandi við gæðaeftirlit á fiski sem kæmi inn á Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er allt öðruvísi. Þarna verða gerðar mjög strangar kröfur til þess að hinum sameiginlegu skilmálum verði fylgt vegna þess að við tökum að okkur landamæravörslu fyrir allt svæðið. Okkur á að treysta sem útstöð, sem landamærastöð fyrir Schengen í vestri. Þeir menn sem koma til Íslands og fara inn í gegnum þau hlið eru komnir inn í Evrópu, eru komnir á Schengen. Og þar af leiðandi er það sameiginlegt mál allra landanna að gæslan sé með þeim hætti sem skylt er.

En ég verð að segja, herra forseti, að ég tel að það sé því miður ekki svo. Ég segi því miður því að ef veruleikinn væri eins einfaldur og mér fannst felast í skilningi hv. þm. Jóns Kristjánssonar á þessu máli, að það væri í sjálfu sér ekkert vandamál varðandi stað eins og Egilsstaði og Akureyri eða hafnir landsins, það væri bara misskilningur að blanda því eitthvað saman við Schengen, þá væri þetta minna áhyggjuefni a.m.k. hvað þennan þátt málsins varðar en það er fyrir mér. Ég held nefnilega að þvert á móti sé þetta eitt af mörgu sem þarna sé verulega ástæða til að hafa áhyggjur af. Ég spái því að hv. þm. Jón Kristjánsson muni nú átta sig á því að þetta er eitthvað flóknara en hann hafði verið að gera sér vonir um þó að ég skilji alveg og viti af hverju hann var sæll í sinni trú af því að það var vissulega reynt að láta líta svo út eða það mátti ráða af gögnum sem fyrir okkur voru lögð í utanrmn., að þetta væri nú ekki stórmál. En ég held að þar hafi ekki öll sagan verið sögð eins og ég vona að mér hafi tekist að rökstyðja eitthvað með máli mínu. Það er a.m.k. minn skilningur á málinu og ég tel mig hafa rök fyrir því að hafa áhyggjur af því að þarna hafi menn ætlað að fara frekar ódýra leið fram hjá álitamáli í þessu sambandi sem ég spái að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á.