Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:07:46 (5580)

2000-03-21 22:07:46# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:07]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Því miður gat ég ekki komið upp í andsvar í þriðja sinn, en ég var nú bara satt að segja svo hissa að ég varð að biðja um orðið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem er mikill áhugamaður um uppgang landsbyggðarinnar, hefur miklar áhyggjur af því hvað gerist ef flugvél frá útlöndum lendir á einhverjum flugvelli á landsbyggðinni. Ég hef engar áhyggjur af því. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því sem landsbyggðarþingmaður, herra forseti, ef flugvélar frá útlöndum vilji ekki lenda á landsbyggðarflugvöllum. Ég held að það sé miklu meira áhyggjuefni en ef að svo færi að þær skyldu vilja lenda þar. Ég held að það hljóti að vera eftirsóknarvert fyrir okkur landsbyggðarmenn ef erlend flugfélög eða íslensk flugfélög með erlendum farþegum vilja nýta þessa velli. En við viljum ekki fara að hugsa til þess með einhverri skelfingu ef þau gera það. Ef flugvélar frá Ameríku, svo maður tali ekki um þrjár, þrjár á einum og sama degi, vilja lenda á Egilsstaðaflugvelli þá fagna ég því. Ég held að það væri bara mikil upplyfting fyrir þann ágæta stað, en ég hef ekki áhyggjur af því.