Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:40:35 (5589)

2000-03-21 22:40:35# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Í máli hv. þm. kom fram að hann bar saman Norðmenn og Íslendinga og viðbrögð þeirra um Evrópuumræðuna, annars vegar festuna sem hefði verið í Noregi eftir að þeir felldu aðild að Evrópusambandinu 1993, og hins vegar Ísland þar sem ekki hefði verið að hans mati sama festa fyrir hendi.

Ég vil vekja athygli á því að hér er um algjörlega ósambærilega hluti að ræða. Á Íslandi hefur aldrei verið borin undir þjóðina sú tillaga að ganga í Evrópusambandið. Og það má því segja með góðum rökum að hér hafi verið miklu meiri festa í þeim málum hvað það varðar að hér hafa menn aldrei látið sér detta í hug að koma með tillögu inn á Alþingi um að bera undir þjóðina spurninguna um hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið. Það hafa Norðmenn þó gert tvisvar sinnum. Ef eitthvað er, þá er festan meiri hjá okkur en Norðmönnum og ég er því ósammála þingmanninum að því leyti til.

Síðan fannst mér dálítið kyndugt þegar hann gat þess að í ljósi þeirrar festu eða skorts á þeirri festu sem hann taldi vera á afstöðunni á Íslandi að forsrh. hefði sýnt mjög mikla festu í málinu. Og hvernig fer það saman að forsrh. sem er kjölfestan í einhverri Evrópuandstöðu, skuli svo vera prímus mótor eða hringamiðjan í einhverri pólitískri umræðu hér á landi sem snýst um stefnuleysi í þessum efnum? Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman, herra forseti, og þætti því vænt um ef hv. þm. gæti útskýrt fyrir okkur hvernig á þessu stendur.