Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:44:57 (5591)

2000-03-21 22:44:57# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Málið er í þeirri stöðu að það hefur enginn lagt það til að Íslendingar gengju í Evrópusambandið og það er ekkert á döfinni svo vitað sé af hálfu neins stjórnmálaflokks að leggja það til.

[22:45]

Á döfinni er að gefa út stöðuskýrslu sem dregur fram stöðu málsins og dregur fram upplýsingar um væntanlega kosti og galla við aðild að Evrópusambandinu frá sjónarhóli Íslendinga. Menn geta þannig kynnt sér þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu og mótað sér afstöðu og umræðan þróast út frá þeim forsendum sem lagðar verða fram. Hvert sú umræða leiðist veit enginn. Ég á ekki von á að út úr henni komi einhver stuðningur við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

En hv. þm. gerði nefnilega dálítið mikið úr því að reyna að gera menn tortryggilega í málinu, að ég held af pólitískum ástæðum af því að hann er á pólitískum atkvæðaveiðum. Það þjónar hagsmunum hans að reyna að gera Framsfl. tortryggilegan í málinu. Hann byggði ræðu sína upp á því að segja að Evrópa eða Evrópusambandið væri að þróast í átt að sambandsríki. Þar af leiðir að hættulegt er að tengjast Evrópusambandinu með Schengen-samningnum af því að þá eru menn að taka þá afstöðu að ganga í Evrópusambandið.

Þetta var málflutningur hv. þm. Ég vil segja að þessi málflutningur á ekki við nein rök að styðjast. Hann er ekki efnislegt innslag í umræðuna heldur bara pólitískar yfirlýsingar, ætlaðar til þess að styrkja stöðu flokks hans.