Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:51:05 (5688)

2000-03-23 11:51:05# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:51]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Örstutt. Vegna sameiningar slökkviliða annars vegar og samfylkingarmanna hins vegar, vil ég taka fram að Samfylkingin var ekki stofnuð til þess að auka öryggi og minnka eignatjón. Það er hins vegar markmiðið með sameiningu slökkviliða þannig að þar á ekki alveg hið sama við.

Svo ég víki að málefni dagsins þá vil ég bara undirstrika ákveðin atriði. Ég heyri að ég og hæstv. ráðherra erum ekki sammála og verðum það ekki. En þessi málaflokkur er þeim sérkennum búinn að í stjórn stofnunarinnar hafa setið fulltrúar tryggingafélaga. Af hverju það? Vegna þess að þar fara sameiginlegir hagsmunir. Það er mjög mikilvægt fyrir tryggingafélögin að halda tjónum í lágmarki. Þau hafa lagt sig fram um það og verið í samstarfi við Brunamálastofnun eða einstök slökkvilið og einnig unnið að því starfi á eigin vegum. Það var kannski ekki síst með tilvísan til þess að ég vakti athygli á mikilvægi þess að metnaðurinn væri til staðar, að menn upplifðu sig ekki í einhverju ráði, valdalausa og allslausa, segjandi hitt og annað meðan algerlega væri undir hælinn lagt hver hlustaði, hvort brunamálastjóri eða forstjóri gerði það, hvað þá ráðherra. Þessi ráð eru auðvitað í lausu lofti. Við skulum bara horfast í augu við það. Þau hafa enga stöðu og spurningin er þá: Til hvers eru þau? En nóg um það.

Ég vonast sannarlega til þess að sí- og endurmenntun verði haldið vel til haga í Brunamálaskólanum. Þar koma þó líka inn í þættir eins og kostnaður. Litlu slökkviliðin hafa ekki efni á því að senda menn til langrar dvalar. Það eru þættir sem við þurfum að gaumgæfa mjög vel, annaðhvort í lagatexta eða í athugasemdum með frv. Það þekki ég vel.

Að lyktum vil ég segja að það eru fjölmargir sem að málinu koma. Brunabótafélag Íslands er einn þáttur sem ekki má vanmeta varðandi uppbyggingu og tækjabúnað slökkviliða vítt og breitt um landið. Þar breytir engu sífelld andstaða Sjálfstfl., herra forseti, við það félag.