Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:54:59 (5690)

2000-03-23 11:54:59# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:54]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti við það að Brunamálaskólinn hefur verið vistaður á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir örsmá sveitarfélög munar um það að senda, jafnvel þó sé ekki nema einn maður, til dvalar hér. Það getur vel verið að búið sé að kippa þessu í liðinn. Ég man hins vegar eftir því að þetta var vandamál þegar námskeiðahald var annars vegar, þegar ég var virkur í sveitarstjórnarmálum. Það getur vel verið að búið sé að kippa þessu öllu í liðinn og þá er það gott og vel.

Ég segi hins vegar, herra forseti, um þessa ofurviðkvæmni hæstv. ráðherra hér ræðustól þegar hún vísar til ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, að hæstv. ráðherra má ekki falla í þann fúla pytt að halda að það eitt að ganga frá lagasetningu á Alþingi dragi úr eignatjóni, fækki dauðaslysum eða meiðslum um allt land. Þannig er veruleikinn ekki.

Herra forseti. Ég reynt að ræða þetta mál á málefnalegum grunni og ég nenni ekki að ræða meira um stjórn eða ráð. Það er aukaatriði af minni hálfu. Við erum að ræða lagarammann sem eftir á að fylla inn í. Ég var að reyna að velta upp ýmsum álitamálum sem mikilvægt er að hafa í huga þegar við setjum á blað lagatexta af þessum toga. Textinn er bara einn og sér. Það er síðan framkvæmdin og eftirfylgjan sem mestu skiptir, ekki síst í þessum málaflokki. Það er því alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að vera jafnhörundsára og hún virtist vera hér í ræðustólnum. Ég sagði það í ræðu minni að ég fagnaði framlagningu þessa frv. Mér sýnist í fljótu bragði að flest af því sem þar birtist horfi til bóta og gerði okkur betur í stakk búin til að ná árangri í þessum efnum. En það er ekkert í hendi í þeim efnum. Ný lög mega ekki skapa okkur falskt öryggi.