Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:59:33 (5692)

2000-03-23 11:59:33# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Frv. gerir ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins sem taki við rekstri flugstöðvarinnar, rekstur Fríhafnarinnar verði sameinaður starfsemi flugstöðvarinnar og hlutafélagið yfirtaki eignir og skuldir stofnananna.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar var byggð á árunum 1983--1987. Með þeirri byggingu náðist það langþráða markmið að aðskilja borgaralegt flug hermálaþætti flugumferðar á Keflavíkurflugvelli. Langtímaskuldir stöðvarinnar vegna byggingarkostnaðar námu 2,4 milljörðum kr. árið 1988 en voru komnir upp í 4,1 milljarð kr. árið 1995. Tekjur stöðvarinnar dugðu engan veginn til að greiða niður þann skuldabagga. Því var gripið til þess ráðs árið 1997 að endurskipuleggja rekstur flugstöðvarinnar með það fyrir augum að auka rekstrartekjur hennar. Aðstaða til verslunar og veitingarekstrar í flugstöðinni var boðin út og leigutökum gert að greiða veltutengda leigu. Árangurinn lét ekki á sér standa og í lok árs 1998 gat flugstöðin í fyrsta skipti staðið í skilum með vexti og afborganir af lánum, sem ekki hafði verið hægt að gera tíu árin á undan þegar skuldirnar söfnuðust upp.

[12:00]

Á síðustu árum hefur orðið ljóst að flugstöðin bæri ekki þá miklu aukningu í flugumferð sem orðið hefur á síðustu árum. Sem dæmi má nefna að farþegar sem fóru um stöðina á fyrsta starfsári voru 806 þúsund á ári en reiknað er með um 1,3--1,4 millj. farþega á þessu ári. Stækkun flugstöðvarinnar var því óhjákvæmileg og hefur þegar verið hafist handa um þá framkvæmd. Fyrsti áfangi þeirrar stækkunar verður 15.600 m2 en flugstöðin er í dag um 17 þúsund m2 og er kostnaður við þennan áfanga áætlaður 3,6 milljarðar kr. Ljóst er að með óbreyttu rekstrarfyrirkomulagi hefur flugstöðin ekki bolmagn til að greiða niður viðbótarfjárskuldbindingar í tengslum við stækkunina og róttækra aðgerða er þörf ef ekki á að koma til umfangsmikilla útgjalda úr ríkissjóði til að greiða fyrir stækkunina.

Með þessu frv. er stefnt að því að skapa forsendur fyrir því að tekjur flugstöðvarinnar geti staðið undir fjárfestingarkostnaði, rekstri og afborgunum áhvílandi lána. Starfsemi fríhafnar verður sameinuð rekstri flugstöðvarinnar og lagður grunnur að frekari tekjuaukningu að verslunarrekstri í stöðinni. Flugstöðin yfirtekur þær skuldir sem rekja má til byggingar stöðvarinnar sem og ný lán vegna frekari stækkunar. Þannig losnar ríkissjóður úr ábyrgðum sem munu nema nálega 8 milljörðum kr. á næstu árum. Þrátt fyrir áætlaðan tekjuauka og sameiningu flugstöðvar og Fríhafnar er gert ráð fyrir að hið nýja fyrirtæki greiði 1.355 millj. kr. í ríkissjóð í formi skatta og arðgreiðslna á næstu fimm árum. Nettótekjur ríkissjóðs af verslunarrekstri í flugstöðinni dragast því einungis saman sem nemur um 140 millj. kr. á ári að meðaltali næstu fimm ár.

Frv. gerir enn fremur ráð fyrir að flugstöðin verði gerð að hlutafélagi með sérstakri stjórn. Hingað til hafa mál flugstöðvarinnar heyrt beint undir utanrrn. Það hefur þannig verið verkefni embættismanna í ráðuneytinu að finna rekstrarforsendur fyrir flugstöðina. Starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið mikilvægt starf á þessu sviði á undanförnum árum en öllum má ljóst vera að nú á tímum er óeðlilegt að verslunarfyrirtæki með veltu á fimmta milljarð kr. á ári skuli vera rekið af skrifstofum Stjórnarráðsins.

Nýir tímar kalla á að nýtt séu þau tækifæri til veltuaukningar og sveigjanleika í rekstri sem hlutafélagsformið býður upp á. Sú ráðstöfun er í samræmi við þróun mála á helstu flugvöllum í nágrannalöndum okkar. Við breytingu á rekstrarformi flugstöðvarinnar verða hagsmunir starfsmanna tryggðir. Breytingin verður framkvæmd í samræmi við ákvæði laga og dómafordæmi sem skapast hafa við áþekkar breytingar á liðnum árum. Í tengslum við breytingar á rekstrarformi og stækkun flugstöðvarinnar er gert ráð fyrir að mikill fjöldi nýrra starfa skapist og er varlegt að áætla að sú fjölgun geti numið um 100--150 störfum.

Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á rekstri alþjóðaflugvalla og samkeppni milli þeirra harðnað. Sala tollfrjáls varnings hefur verið lögð af innan Evrópusambandsins. Sú breyting hefur ekki leitt til minnkandi verslunar á flugvöllum heldur hafa flugvellir lagt síaukna áherslu á vænlegt verslunarumhverfi og fjölbreytta þjónustu til að laða að farþega og afla tekna til starfsemi sinnar. Sama þróun hefur átt sér stað um allan heim. Mikilvægt er að treysta stöðu flugstöðvarinnar í þessari samkeppni svo að auðveldara sé að hámarka tekjur af verslunarrekstri.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur hins vegar sérstaka stöðu þar sem hún er ekki einvörðungu samgöngumannvirki heldur gegnir hún einnig mikilvægu hlutverki í varnarsamvinnu okkar við Bandaríkjamenn. Flugstöðinni er ætlað hlutverk í varnarþágu á ófriðartímum í samræmi við samninga milli Íslands og Bandaríkjanna sem við skulum vona að aldrei komi til. Í frv. er gert ráð fyrir að þessar skuldbindingar standi óhaggaðar. Þá er rétt að nefna að embætti flugvallarstjóra mun áfram hafa með höndum yfirumsjón með flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli og samskipti við varnarliðið í því sambandi.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til meðferðar í hv. utanrmn.