Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:25:09 (5726)

2000-03-23 14:25:09# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns langar mig að bregðast við orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér í umræðunni þegar hann blandaði því inn í umræðuna um Flugstöð Leifs Eiríkssonar að Framsfl. væri orðinn deild í Sjálfstfl. Ég ætla ekki að svara fyrir það, það hefur formaður Framsfl. gert sjálfur og mun væntanlega bregðast við slíkum umsögnum. En það er beinlínis óþolandi að Sjálfstfl. sleppur eða víkur sér undan óþægilegum málum í ríkisstjórn aftur og aftur. Hann afgreiðir þau mál yfir á samstarfsflokkinn og hann hefur leikið þennan leik ekki í einni ríkisstjórn heldur a.m.k. tveimur og yfir á þá þriðju. Hann er á vissan hátt eins og hvelja sem sleppur undan ábyrgð sinni af því að það hentar þeim stóra flokki.

Ég minni á að forsrh. tók ekki ábyrgð á Fljótsdalsvirkjun fyrr en átök urðu hér í þessum sal að morgni dags í umræðu um störf þingsins og vakti athygli okkar allra. Og forsrh. og flokkur hans hefur látið Framsfl. bera þungann af pólitískri umræðu og afgreiðslu á Schengen-málinu og við þingmenn sem störfum á Alþingi og tökum þátt í umræðum í þessum sal tökum auðvitað eftir þessu. Þetta hentar þessum flokki og eru þar með örlög samstarfsflokks hans. Við þurfum þess vegna ekki að vænta þess í þessu máli eða öðrum óþægilegum að forsrh. ...

(Forseti (GuðjG): Hæstv.)

... hæstv. birtist hér. --- Já, herra forseti, ég skal gæta þess að segja hæstv. forsrh. um þann góða mann. Við þurfum ekki að vænta þess að hæstv. forsrh. birtist hér eða taki ábyrgð á óþægilegum málum. Það samræmist ekki foringjastíl hans.

Herra forseti. Ég hafði þörf fyrir að minnast á þetta í upphafi máls míns í umræðu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kemur væntanlega engum á óvart þó að ég láti þessi orð falla því að hver einasti maður utan og innan þessa húss þekkir þá sýn sem ég er að draga upp.

Í öðru lagi vil ég taka fram að fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn. hafa tekið þessu frv., þ.e. kynningu utanrrh. á frv. í utanrmn., mjög vinsamlega. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki tekið þetta mál beinlínis til formlegrar afgreiðslu. Það kom hér inn á þing fyrir svo fáum dögum að flest okkar eru bara enn þá með það í handritsformi á borðunum. Við munum að sjálfsögðu skoða það og hvort þingflokkurinn er einungis með eina afstöðu til málsins. Það er engin ástæða til að við gerum það fyrr en málið fer að vinnast í nefnd og svör hafa komið við þeim spurningum sem m.a. hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson varpaði fram í spurningum sínum til hæstv. utanrrh. Við skulum hafa þetta á hreinu.

Með þessari umræðu erum við ekki að leggjast gegn frv., síður en svo. Við viljum ræða það, fá skýrari mynd af afleiðingum þess og skoða hvaða afleiðingar samþykkt frv. hefur.

Hér var það nefnt, og reyndar kom það líka fram í máli hv. Ögmundar Jónassonar að honum fyndist jafnaðarmenn vera farnir að bregðast við á nýjan hátt. Hv. þm. var að gefa það til kynna að stefna jafnaðarmanna samræmdist ekki þeirri stefnu jafnaðarmanna sem honum fyndist að ætti að vera til. Þá langar mig að minnast á það í tilefni af þessum ummælum, að á sínum tíma voru bæjarútgerðir starfandi úti um allt land sem jafnaðarmenn komu á laggir og skiptu mjög miklu máli fyrir atvinnulíf þess tíma. Mér dettur ekki í hug að nokkur maður fari að koma með tillögu um það í dag að sveitarfélög hringinn í kringum landið fari að setja bæjarútgerðir á laggirnar.

[14:30]

Þetta er bara breyting og þróun sem hefur átt sér stað. Það breytir því ekki að jafnaðarmenn á ýmsum stöðum og í sveitarfélögum um land allt bera atvinnumál á atvinnusvæðum sínum jafnmikið fyrir brjósti og áður. Ég vil líka nefna það, af því að mér er það mál skylt, að í kreppunni lögðu fátækir sjómenn fram fé til samvinnufélaga, bátasamvinnufélaga, fé sem þeir áttu ekki og sem þeir mundu aldrei fá til baka aftur, enda var það ekki arður eða ágóði sem stýrði því heldur löngun til að stuðla að atvinnuuppbyggingu í heimabyggð sem stýrði því að menn lögðu fé af mörkum til að stofna útgerðarsamvinnufélög, eins og t.d. á Ísafirði. (Gripið fram í: Gleymdu ekki kúabúunum.) Ég gæti nefnt kúabúin og margt fleira. Ég er að nefna það sem ég þekki, jafnvel á kroppnum.

Þetta gerum við ekki lengur af því að þetta voru aðgerðir og barn síns tíma. Ég vil líka nefna að við viljum að þjónustustofnanir á velferðarsviði séu að langmestum hluta á sviði og vettvangi ríkisins. Það er af því að við viljum ekki að það sé geðþóttaákvörðun einkaaðila sem ræður velferðarþjónustu eða velferðarstigi í landinu. Um þetta erum við sammála. Ég vil þó minna á að það er ekkert fortakslaust að ákveða að einhvers konar einkaumönnun sé til staðar og ég vil sérstaklega minna á að á vegum Barnaverndarstofu eru gerðir þjónustusamningar við einkaaðila, við fjölskyldur sem hafa sett sig niður eða breytt búum sínum og taka við dýrmætum þætti velferðarþjónustu, nefnilega að taka á móti ungmennum sem hafa orðið fíkniefnum að bráð og gera þjónustusamninga um umönnun og þjónustu við Barnaverndarstofu. Þetta hefur reynst vel, þetta er gott mál. Og það er ekkert sem segir að ríkið verði að kaupa sveitabýli og ráða fólk á býlið til að reka slíka starfsemi.

Þess vegna hljótum við að bera mjög fyrir brjósti hvernig velferðarþjónusta er veitt og hvernig hún er skilgreind. Við verðum að skoða það á hverjum tíma hvaða leið er best í því máli sem við erum með í höndunum.

Við getum líka rætt annað mál eins og það að bjóða út byggingu og rekstur öldrunarþjónustu, skóla o.s.frv. Þar spyrni ég gjörsamlega við fótum vegna þess að það samræmist ekki þeirri hugmyndafræði sem ég aðhyllist, að afhenda slíkt fortakslaust til einkaaðila með arð í huga því það hlýtur að ráða viðhorfi þeirra sem byggja upp og taka við slíkum verkefnum.

Við höfum sagt undanfarin ár að við viljum skoða hvað á að vera hjá ríkinu og hvað ekki. Við viljum meta hvað á skilyrðislaust að tilheyra ríkisstarfsemi og hvað má vera annars staðar, hvað má einkavæðast. Og við höfum talið að fara eigi yfir flóru fjárlaganna og ríkisstofnana og skoða þetta grjóthart.

En það er ekki gert hjá þessari ríkisstjórn. Hingað detta inn háeffingar og einkavæðingar, meira og minna tilviljanakennt og með svo litlum fyrirvara að alþingismenn eiga sáralítinn kost á að kynna sér forsendur eða hugmyndafræði að baki þeirri ákvörðun sem fyrir okkur er lögð hverju sinni. Frv. kemur e.t.v. inn á þriðjudegi og það er tekið til umræðu á fimmtudegi alveg óháð því hvort þingmenn hafi verið önnum kafnir í öðrum verkum og umræðum fram að því.

Þingmönnum er ekki ætlað að hafa miklar skoðanir á því hvað geti falist í breytingunni úr stofnun í ,,háeff``-félag og svo síðar við einkavæðingu og sölu. Þetta er það sem er að. Í stað þess að þetta sé gert eins og hjá fólki, að farið sé yfir hvert menn stefna í upphafi kjörtímabils og ákveðið hvar menn ætla að enda, hvað þeir ætli að vera með sjálfir og hvað eigi að vera annars staðar þannig að um það geti farið fram öflug pólitísk umræða sem grundvallast á hugmyndafræði þeirra sem um þetta véla. Sú hugmyndafræði er ólík hvort sem flokkurinn heitir Vinstri grænir, Samfylkingin, Framsfl., Sjálfstfl. eða Frjálslyndir. Þess vegna eru hér ólíkir flokkar af ólíkri stærð. Ég sakna slíkrar umræðu í þessum sal, nákvæmlega slíkrar umræðu, pólitískrar, málefnalegrar umræðu um hvert hver flokkur ætlar að stefna í slíkum málum og hvert ríkisstjórn á hverjum tíma ætlar að stefna. Þessu er hent inn á borðið tilviljanakennt og sagt: Hana, takið við þessu og skoðið það og verið með eða á móti. Við búum við slík vinnubrögð og þau vinnubrögð eru frekar leiðinleg, svo ég taki ekki dýpra í árinni.

Ég held að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hafi bent á það að þegar menn eru búnir að afgreiða frá sér stofnunina í ,,háeff``-félag sé viðkomandi ráðherra laus allra mála gagnvart því að gefa upplýsingar um hvað sé að gerast í fyrirtækinu og Alþingi sé búið að fá fyrirtækið í þá fjarlægð að ráðherrann sé stikkfrí hvað varðar upplýsingagjöf.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég sakna þess að sjá ekki hæstv. utanrrh. hér. Það eru ekki margar spurningar sem ég ætla beinlínis að beina til hans --- ég tel að vísu að það sé gott fyrir hæstv. ráðherra að vera viðstadda umræður sem þeir kveikja af því að ýmislegt kemur nú fram í umræðum. En ég er komin að spurningu sem ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra heyri og hún varðar frv. til laga um breytingu ...

(Forseti (GÁS): Vegna fyrirspurnar hv. þm. um viðveru hæstv. utanrrh. verður forseti að hryggja hv. þm. með því að ráðherra þurfti að fara á fund með Samtökum atvinnulífsins sem haldinn er í forsrn. klukkan þrjú. En hann hefur í hyggju að mæta aftur til fundarins og þessarar umræðu. Það verður því að vera ákvörðunarefni hv. þm. hvort hún bíður með fyrirspurnir sínar eða treystir aðstoðarmönnum ráðherrans til þess að taka þær niður.)

Herra forseti. Ég er alþingismaður í umræðu á hv. Alþingi og tala til alþingismanna og þar með hæstv. utanrrh. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ræða þarf við aðila atvinnulífsins. Það vekur hins vegar upp þá spurningu hvað við eigum að gera þegar ráðherrarnir eru búnir að binda sig hér og þar á sama tíma og þeir hafa kallað eftir umræðu um mál sem þeir bera inn. Þetta mál kom inn á borð okkar fyrir tveimur dögum og er tekið til umræðu í dag þrátt fyrir að ráðherra muni ekki geta verið viðstaddur umræðuna allan þann tíma sem hún stendur. Mér finnst það miður og ég held að við þingflokksformenn þurfum að ræða það á fundi hjá forseta hvort í slíkum tilfellum eigi að fresta umræðunni og taka hana upp aftur þegar ráðherrar geta mætt.

Ég ætla hins vegar að vekja athygli á því, af því að ég er að ræða hér alvarlegt mál og ég er að tala til alþingismanna, að formaður utanrmn. sem mun fá þetta mál til afgreiðslu í sinni nefnd er heldur ekki staddur hér, en ég þykist vita að hér séu einhverjir einstaklingar sem eru úr utanrmn. og ætla því að ljúka máli mínu. En ég kem þessum athugasemdum á framfæri við forseta, að það verður auðvitað að skoða hvernig á að bregðast við þegar menn eru að fá mál svona skjótt á dagskrá en geta ekki verið við umræðuna.

Það sem ég ætlaði að benda á er frv. til laga sem liggur fyrir þinginu um breytingar á hlutafélagalögunum og þetta mál flytja nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar með hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson í fararbroddi. Þar segir: ,,Hlutafélögum, sem teljast til E-hluta ríkisreiknings og ríkið á að hálfu eða meira, er skylt að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinbert málefni og ríkisfyrirtækjum.``

Þetta er stórmál og sérstaklega varðandi þá umræðu sem hér hefur átt sér stað að með því að hlutafélagavæða stofnun sé búið að setja hana í þá fjarlægð að alþingismenn geti ekki lengur fengið mikilvægar upplýsingar sem þeir krefjast, þeir geti ekki komið með óþægilegt aðhald að ráðherranum o.s.frv. Ef þetta frv. verður hins vegar að lögum þá er það svo að meðan félagið telst í meirihlutaeign ríkisins eru gerðar sömu kröfur um upplýsingaskyldu til Alþingis eins og væri það stofnun. Ég hvet alþingismenn til að sameinast um að þetta frv. geti orðið að lögum því það mun gjörsamlega breyta umfjölluninni um að breyta stofnunum ríkisins í hlutafélög, a.m.k. meðan ríkisstjórnin er að gefa það til kynna að þannig verði það til allnokkurra ára.

Ég vil líka koma inn á það, virðulegi forseti, að nefnt hefur verið að þetta fyrirtæki væri gullgerðarvél og við höfum átt fleiri slíkar og má nefna Landssímann. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar ákveðið þjónustusvið í stofnunum ríkisins er komið í bullandi samkeppni af því Alþingi hefur á einhverjum tíma afgreitt lög sem hafa opnað fyrir samkeppnisfyrirtæki á markaði, þá stöndum við frammi fyrir því að það er varla ákvörðun lengur hvort við höldum slíku þjónustufyrirtæki eða þjónustuhluta þess í eigu ríkisins sem algjörri ríkisstofnun vegna þess að þá er hún farin að skekkja samkeppnisstöðu og viðhalda ójöfnuði sem ekki er sæmandi. Í sumum tilfellum hefur það gerst, herra forseti, að menn hafa fyrst sett lög sem hafa opnað á samkeppnina, fyrirtæki hafa orðið til, þau sömu fyrirtæki hafa fundið til þess ójafnaðar sem felst í því að ríkisfyrirtæki er með ríkiseinokun og kæra til Samkeppnisstofnunar og Samkeppnisstofnun kemur og krefst breytinga hjá ríkisfyrirtækinu sem það verður stundum ekki við, eins og hefur gerst hjá Landssímanum, en hægt og sígandi rennur upp fyrir mönnum það ljós að a.m.k. þjónustuhluti þess fyrirtækis verður að fara út á markað til að hreinar línur séu í samkeppninni. Þannig gerast málin, herra forseti, oft á þann hátt að þegar það kemur til ákvörðunar okkar hefur ákvörðunin í raun verið tekin fyrir alþingismennina.

Herra forseti. Það voru nokkrar spurningar sem ég vildi varpa hér fram og treysti því að formaður utanrmn. fari yfir umræðuna og sjái hvað hafi verið spurt um. Ég ætla líka að benda á að í 4. gr. frv. kemur fram að sú nefnd sem á að setja á laggirnar, þar sem á að meta eignir, réttindi, skuldir og skulbindingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, fær mjög stuttan tíma. Hún á að skila þeim tillögum í lok júlí, enda á að stofna hlutafélagið 1. september og hlutafélagið á að yfirtaka allar eignir þann 1. október. Og miðað við hraðann á einkavæðingarnefndinni sem sendir okkur eitt og eitt mál í einu inn á þing, þá finnst mér að þarna sé ætlast til gífurlega mikils verkefnis á mjög skömmum tíma.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar er afskaplega flott bygging. Hún var mjög dýr. Ég get ekki dæmt um hvort hún er jafnhentug og hvort hentugleikinn er í samræmi við verðið á henni, en það er umhugsunarefni að ef hún verður seld hefur það verið reynsla okkar að ríkið hefur verið með eins konar útsölu á ríkisfyrirtækjum og hafi fyrirtækið verið gullgerðarvél fyrir ríkið áður þá er það afskaplega eftirsóknarverður gullklumpur þegar út á markaðinn er komið og gætum við nefnt mörg nýseld fyrirtæki því til stuðnings. Við erum ekki að fjalla um það hér en við hljótum að gera ráð fyrir að í kjölfar þess að þetta fyrirtæki verði ,,háeffað`` verði það selt einhvern tíma, ég geri mér enga grein fyrir hvenær það verður. Þess vegna skiptir mjög miklu máli hvernig haldið er á þessu máli og hvernig er haldið utan um eigur ríkisins. Ef slíkt fyrirtæki verður selt, þá verði séð til þess að a.m.k. það fjármagn sem almenningur í gegnum ríkið hefur lagt í fyrirtækið skili sér til ríkisins og annarra þarfa og uppbyggingar. Það er grundvallarkrafa sem við hljótum að gera.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra, af því að vísað er til þess í 13. gr. að stjórnin sem nú hefur verið yfir Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði lögð niður. Mig langar að vita hve margir hafi verið í þeirri stjórn og hvaða verkefni þeir hafi haft. Ég geri ekki ráð fyrir að neinn hér geti svarað því. Ég legg það hins vegar inn í umræðuna þannig að það verði tekið fyrir í utanrmn. Sömuleiðis vil ég nefna að í 15. gr. á að setja þjónustugjaldskrá eða að heimilt verði að þetta nýja hlutafélag setji þjónustugjaldskrá fyrir félagið þar sem gætt verði --- taki menn eftir --- almennra arðsemissjónarmiða og jafnframt tekið tillit til nýjunga sem geta haft áhrif á söluverð þjónustu félagsins.

[14:45]

Þá vaknar þessi spurning: Á hverja eru sett þjónustugjöld? Hverjir eru það sem borga þjónustugjöld í dag og munu borga þau áfram? Það er alveg ljóst að þessi þjónustugjöld munu hækka miðað við þessa uppsetningu á málinu. Hverjir eru það sem borga þurfa hærri þjónustgjöld og til hverra mun það þjónustugjald renna? Því þannig er það alltaf að það kemur út í verðlagið sem á er lagt.

Ég vil taka líka undir þær spurningar hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar varðandi umsögn fjmrn. Þar bæti ég við: Hver mun í framtíðinni ákveða lendingargjöldin sem hlutafélagið fær 25% af? Verða þessar tölur fyrir áhrifum af Schengen? Það er mjög stór spurning sem ég hefði viljað fá svar við hér. Ráðherrann orðaði það svo að þetta væri fyrirtæki í miklum vexti og því hlýtur það að verða mjög arðbært í tímans rás. Upplýsingarnar sem fylgja með þessu frv. eru mjög óljósar.