Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 15:15:07 (5873)

2000-04-04 15:15:07# 125. lþ. 89.10 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fólki fyrir þessa umræðu og þær undirtektir sem frv. hefur fengið. Ég geri ráð fyrir að það hafi breiðan og góðan stuðning í öllum þingflokkum, enda er málið þess eðlis. Ég ætla ekki að fara að taka upp gamla umræðu um þróun þeirra marka sem hér er um að ræða, þ.e. skattleysismarka, persónuafsláttarins og þeirra hluta allra saman. Við sem komum að þessu máli þegar núverandi skattkerfi var upp tekið í ársbyrjun 1988 munum mætavel hvernig þetta var úr garði gert. Þá var persónuafslátturinn látinn fylgja lánskjaravísitölunni. Kerfið tók gildi 1. janúar 1988 og persónuafslátturinn var látinn fylgja lánskjaravísitölunni í nokkur missiri, ekki mjög mörg, þar til þáverandi ríkisstjórn breytti því kerfi og farið var yfir í það að taka sérstakar ákvarðanir í hvert skipti um þróun þessara upphæða.

Ég nenni ekki að fara að rifja upp hvernig þetta gekk fyrir sig eða hverjir sátu í ríkisstjórn á þeim tíma eða hvernig þetta var allt saman. Við höfum gert þetta svo oft að það tekur því ekkert. (RG: Það þýðir heldur ekki lengur að horfa til fortíðar.) Nei, það tekur því ekki að horfa til fortíðar í þessum efnum. Það er rétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Það er alveg hundleiðinlegt. Það borgar sig ekkert. Ég ætla því ekki að fara inn í þær umræður. Það er alveg ástæðulaust. Aðalatriðið er að hér er komin ákveðin niðurstaða sem menn hafa ákveðið að fylgja fram í tengslum við þá kjarasamninga sem gerðir voru fyrir nokkrum vikum síðan.

En það var fleira í þessari yfirlýsingu, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi. Eitt af því voru fyrirheit um ákveðnar breytingar á barnabótakerfinu. Ég sagði hér fyrir 12 dögum eða svo að það mál væri í úrvinnslu. Það frv. hefur ekki séð dagsins ljós í Alþingi enn sem komið er. Það er verið að vinna að málinu. Það er ekki ætlunin að þær breytingar taki gildi fyrr en á næsta ári og á árunum 2001--2003 þannig að það er ekki endilega nauðsynlegt að slíkt mál hljóti afgreiðslu á þessu þingi. En ef tekst að ljúka þeirri vinnu og koma því máli inn í þingið, þá væri afskaplega gott að eiga stuðning vísan við að lögfesta þær breytingar nú á þessu þingi. Það væri auðvitað betra að vera búinn að því þegar þinginu lýkur frekar en að gera það í haust. En um það er því miður ekki meira að segja á þessu stigi málsins.

Að því er varðar fæðingarorlofið þá er líka ákvæði um það í yfirlýsingunni frá 10. mars. Það er að vísu ákaflega almennt orðað ákvæði. Það er ekki farið neitt efnislega út í það mál. Það er vegna þess að þá var ekki vinnan í því máli komin lengra en svo að menn treystu sér ekki til þess að skrifa meira á blað um það efni. Nú er það mál mun lengra komið eftir ítarlegar viðræður við aðila á vinnumarkaðinum, eftir vinnu í Stjórnarráðinu, eftir samstarf við opinbera starfsmenn og eins og ég segi, samtök atvinnulífs og launþega. Ég geri mér vonir um að það mál komi inn í þingið von bráðar og það mun þá verða flutt af hæstv. félmrh. því að ætlunin er að flytja þennan málaflokk yfir í það ráðuneyti eins og mörg rök eru fyrir. Ég ætla ekki að mæla fyrir því máli hér og nú. Það er óeðlilegt. En það er alveg rétt sem hv. þm. sagði að allir sem hafa komið nálægt úrvinnslunni á því máli eru mjög ánægðir með niðurstöðuna. Ég tel að hún sé meiri háttar góð eins og krakkarnir segja.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu og ítreka mínar óskir um að nefndin afgreiði þetta þingmál vel og fljótt.